LED lýsing á gangbrautir til að auka öryggi

Tækni sem gerir gangandi vegfarendur sýnilegri þegar þeir fara yfir gangbrautir verður tekin í notkun á fimm stöðum í Reykjavík í haust. Tillaga Sjálfsstæðisflokksins um að ráðist verði í þetta tilraunaverkefni var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar í gær.

Um ræðir tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð.

Það var Sjálfstæðisflokkurinn í Borgarstjórn Reykjavíkur sem lagði til að ráðist verði í tilraunaverkefni fyrir komandi haust til að auka öryggi gangandi vegfarenda í umferðinni með nýrri tækni við gangbrautir borgarinnar. Þetta er þáttur í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar með umferðaröryggi að leiðarljósi fyrir alla vegfarendur. Valdir verði fimm staðir þar sem sett verði upp ný gerð gangbrautarlýsingar og merkinga.

Um er að ræða tæknibúnað sem skynjar þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbraut og kveikir þá LED götulýsingu, sem sett er upp þannig að einungis gangbrautin og sá sem fer yfir verða lýstir upp. Einnig kviknar lýsing í gangbrautarmerkinu og viðvörunarljós fyrir akandi umferð. Þessi tækni er þekkt erlendis og gagnast vel í skammdeginu í nyrstu höfuðborginni; Reykjavík. Áætlaður kostnaður við búnaðinn er innan við tíu milljónir króna fyrir alls fimm staði í borginni, en lagt er til að skipulagssviði verði falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum. Ef vel tekst til gæti þetta verið upphafið að stórátaki til að auka öryggi óvarinna vegfarenda í Reykjavík verulega og um leið að stuðla að nútímavæðingu borgarinnar í þessum efnum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins og Flokks fólksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

Öryggi gangandi og annarra óvarinna vegfarenda hefur mikið verið í umræðunni undanfarið í Reykjavík og um allt land vegna fjölda slysa. Hverfisráð borgarinnar, foreldrafélög, íbúasamtök og aðrir hafa ítrekað bent á þörf á stóru átaki í þessum efnum. Reykjavík á að vera í forystu í þessum efnum sem höfuðborg landsins.

Í umferðarlögum er talað um „gangbrautir“ sem eru merktar með gangbrautarmerkjum D02.11 og zebrabrautum máluðum á yfirborð sem hafa lögformlega skyldu á ökumenn að stöðva skilyrðislaust vegna gangandi vegfarenda. Margar nýjar tæknilausnir auka öryggi gangandi vegfarenda verulega. Þar má nefna hreyfiskynjara, LED-lýsingu, upplýst gangbrautarmerki o.fl. Reykjavíkurborg hefur þegar sett sér markmið um „snjallborgina Reykjavík“ þar sem nýjar tæknilausnir eru notaðar í þágu umferðaröryggis. Þessi hugmynd hefur fengið jákvæðar undirtektir hjá lögreglunni, Vegagerðinni og fleirum.

Fimm staðir í borginni verða valdir fyrir haustið, til að prófa tæknilausnir sem henta við mismunandi aðstæður. Þannig fást vísbendingar á skömmum tíma, til að leggja til grundvallar frekari aðgerðum. Kostnaður við kaup á búnaði í þessu sambandi hefur verið kannaður og reynist hann vera vel innan við 10 milljónir fyrir allt að 5 prófunarstaði, auk uppsetningarkostnaðar. Þetta er ódýr tilraun sem gæti skilað miklum árangri og aukið öryggi borgarbúa til framtíðar.