Leitin að réttu innstungunni

http://www.fib.is/myndir/Tenglar.jpg
Venjulegur þriggja þátta tengill og framlengingarsnúra duga skammt þegar endurhlaða þarf rafbílinn eða tengiltvinnbílinn.

Það hljómar sannarlega ekki flókið að stinga rafbíl í samband til að endurhlaða geyma hans. En ekki er allt sem sýnist:

Þegar málið snýst um að að taka með hraði 400 amper af raforku út úr heimilisinnstungunni og hlaða inn á geyma bílsins um venjulega framlengingarsnúru þá vandast málið. Slíkur búnaður dugar nefnilega hvergi nærri til slíks.  Áður en tengiltvinnbílar og rafbílar verða almenningseign verða nefnilega verkfræðingarnir  sem um þessi mál véla, fyrst að koma sér saman um einn staðal fyrir tengla og rafmagnskapla til þessara nota og búnaðurinn verður að að vera bæði öruggari, fyrirferðarminni og afkastameiri en venjuleg þriggja þátta framlengingarsnúra með plús-, mínus- og „jörð.“

Eitt það mikilvægasta í þessu sambandi er að menn komi sér hið fyrsta saman um einn staðal – eina megingerð tengibúnaðar því óþolandi væri að um margar gerðir verði að ræða eins og verið hefur fram að þessu.  Ekki gengur nefnilega að hver bílaframleiðandi sé með sína gerð tengla og aðeins sé því hægt að hlaða straumi inn á Chevrolet Volt á þessari orkustöð, Toyota Prius á hinni stöðinni og Hondu á þeirri þriðju. Rúmur áratugur er frá því að tilraunir með tengiltvinnbíla hófust í Kaliiforníuríki og maður sem tók þátt í þeim frá upphafi minnist þess að þá voru minnst fjórar gerðir tengla í umferð sem olli miklum erfiðleikum, töfum og leiðindum þeim sem þátt tóku í tilraununum.

Verkfræðingar í bandaríska bílaiðnaðinunm vinna nú að því að búa til staðal fyrir tengilbúnað, en staðallinn á að verða tilbúinn á næsta ári. Það er varla seinna vænna því að tengiltvinnbílar eru að koma á almennan markað. Tesla rafbíllinn er þegar kominn, Toyota Prius tengiltvinnbíll er væntanlegur í næsta mánuði og Fisker tengiltvinnbíllin síðar á þessu ári. Þá er þegar byrjað að reisa hleðslustöðvar og setja upp hleðslubúnað á bensínstöðvum. Það þykir vera grundvallaratriði að búnaðurinn verði eins fyrirferðarlítill og hægt er, en jafnframt öruggur og auðveldur í notkun.