Lestargangur á hraðbrautum

Tölvustýrðar bílalestir á hraðbrautum geta orðið raunveruleiki innan áratugs segir í frétt frá Volvo sem hefur verið að prófa fyrirbærið á tilraunabraut sinni við Gautaborg í Svíþjóð með ágætum árangri. Þessi lestargangur eða Platooning eins og það kallast í frétt Volvo snýst um það að fyrir bílalest fer reyndur og öruggur ökumaður. Forystubíllinn og bílarnir sem á eftir honum aka eru tölvutengdir saman þannig að það er í raun forystubíllinn sem stjórnar akstri hinna sem á eftir koma. Ökumenn þeirra þurfa því ekkert að hugsa um aksturinn og geta sinnt öðrum hlutum.

http://www.fib.is/myndir/Roadtrain.jpg

Volvo hefur unnið að gerð hug- og stjórnbúnaðar fyrir þetta „lestakerfi“ og prófað það í tölvuhermum. Evrópusambandið hefur svo stutt fjárhagslega þær tilraunir sem nú eru hafnar með kerfið í raunverulegum bílum og raunverulegri umferð. Þetta kerfi nefnist SARTRE sem stendur fyrir Safe Road Trains for the Environment.

„Við erum afar ánægð með hvað kerfið virkar vel í fyrsta sinn sem það er prófað við raunverulegar aðstæður,“ segir Erik Coelingh verkfræðingur hjá Volvo í Gautaborg. Hann segir það ekki síst sérstakt vegna þess að sjö fyrirtæki í fjórum löndum hafa unnið að einstökum þáttum eins og hönnun og þróun myndavéla og samkiptabúnaðar.

Bretinn Tom Robinson sem starfar að SARTRE verkefninu segir að lestarmyndunin eða Platooning muni hafa í för með sér aukið öryggi vegfarenda á hraðbrautum og bætta nýtingu brautanna og verði mörgum ökumanninum mikill hægðarauki á langferðum. Þá muni hún draga úr eldsneytiseyðslu og að sama skapi úr CO2 losun. 

Eins og fyrr segir virkar kerfið þannig að bílstjóri forystubílsins, sem t.d. er langferða-flutningabíll, stjórnar í rauninni akstri allra bílanna sem í lestinni eru. En hver og einn bílstjóri er hins vegar alls ekki fastur í lestinni, heldur getur hann hvenær sem er tekið sig út úr henni ef honum sýnist svo.