Léttfjaðrir í Audi bílum

Samkvæmt frétt frá höfuðstöðvum Audi í Ingolstadt í Þýskalandi hafa verið þróaðir nýir glertrefjastyrktir fjaðragormar úr plastefni. Nýju gormarnir eru rúmlega 40% léttari en stálgormar og a.m.k. jafnsterkir og þeir en eiga jafnframt að reynast mun endingarbetri. Einn plastgormur vegur tæplega 1,6 kíló en stálgormurinn sem hann leysir af hólmi vegur 2,7 kíló. Nýju plastgormarnir verða í Audibíl í efri milliflokki sem væntanlegur er á markað síðar á árinu.

Nýju fjaðragormarnir nefnast GFK-fjaðrir. Þeir hafa verið þróaðir í samvinnu milli Audi í Ingolstadt í Þýskalandi og ítalsks íhlutaframleiðanda. Plastgormarnir verða auðþekktir á ljósgræna litnum og á því að efnið sem myndar gorminn er nokkru sverara en stálteinsvafningarnir alla jafna eru. Á móti kemur að vafningarnir eru færri en í stálgormunum sem þeir leysa af hólmi. Fjöðrunareiginleikarnir eru þó sagðir minnst jafngóðir og hjá nýjum stálgormum. Með því að setja GFK gorma við öll hjól fólksbíls af millistærð í stað gömlu stálgormanna sparast  um 4,4 kíló af þyngd, bara við umskiptin ein. En GFK gormarnir hafa þá kosti umfram stálgorma að þeir sligast mun síður, þeir ryðga aldrei eða tærast og eru nánast ónæmir fyrir „málmþreytu“ sem oft veldur því að stálgormar brotna. „Með GFK-gormunum spörum við þyngd í fjöðrunarkerfinu en til viðbótar verður fjöðrunin betri og þar með batna aksturseiginleikar bílsins, sérstaklega í beygjum,“ segir Prof. Dr. Ulrich Hackenberg forstöðumaður tækniþróunardeildar AUDI AG. Hann telur þessi ekki langt að bíða að plastgormar ryðji stálgormum úr vegi.