Lexus boðar fleiri jeppagerðir

http://www.fib.is/myndir/Lexus-hpx.jpg
Lexus HPX.

Meira vöruúrval á að auka söluna og stækka markaðshlutdeildina. Það er hugsun stjórnenda Lexus sem nú boða nýjar og fleiri gerðir bíla, ekki síst lúxusjepplinga sem eru minni en Lexus RX 300. Forsmekkur að þessum nýju gerðum sást í hugmyndarbílnum HPX sem sýndur var í New York árið 2003.

Þar sem Lexus er  lúxusmerki Toyota mætti vel hugsa sér að vegna þess að heimatökin eru hæg, þá gætu menn komið fram með Lexusútgáfu af hinum nýja Toyota RAV4, jafnvel strax á næsta ári. Þá telja erlend bílatímarit sig hafa veður af því að verið sé að hanna jepplinga byggða á grunnplötu hins nýja Lexus IS. Sá bíll verði byggður í Japan og eigi að keppa við bíla eins og Infinity FX frá Nissan.