Lexus í Noregi hættir með dísilvélar

Það sem af er árinu hafa samtals 438 Lexus IS bílar verið nýskráðir í Noregi. Langflestir bílanna eru tvíorkubílar eða tvinnbílar – ganga fyrir bensíni og rafmagni. Einungis 12 þessara 438 bíla eru dísilknúnir og tveir eru eingöngu bensínknúnir Allir hinir eru tvinnbílar. Það er því varla líklegt að söluumboðin í Noregi muni gera stórar athugasemdir við þá ákvörðun innflytjandans að hætta alfarið við dísilbílana og leggja megináherslu á tvintæknina framvegis. BMW er bílamerki sem mjög mikils álits nýtur í Noregi. Hinn nýi BMW 1 er þar kominn á markað og er helsti samkeppnisbíll hans Lexus CT200h. Af honum hafa verið nýskráð í Noregi á árinu samtals 380 eintök. Loks hafa verið nýskráð 44 eintök af jepplingnum Lexus RX 450h.

Markaðsstjóri Lexus í Noregi segir við bílatímaritið BilNorge að hinn norski innflytjandi Lexus sé sá eini í Evrópu sem ákveðið hafi að hætta alfarið við dísilvélarnar og selja framvegis einungis tvinnbíla. Aðrir haldi áfram, ennþá amk. að selja dísilbíla. Hann segir að meðal ástæðna þessa sé sá vilji manna að draga sem mest úr útblæstri NOx efna sem séu nokkur fylgifiskur dísilvéla. Hann fagnar nýlegri ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar um að leggja á sérstakt NOx-gjald á dísilbíla frá og með næsta ári og segir hana skref í rétta átt.