Leyniformúla bak við léttara eldsneyti

Norska olíufélagið Statoil er þessa dagana að breyta um eldsneyti á afgreiðslustöðvum sínum á Norðurlöndunum. Nýja eldsneytið er auðkennt með vörumerkinu -Miles sem nær bæði til bensíns og dísilolíu. Almennt segir Statoil að Miles eldsneytið brenni betur í bílvélunum og fari betur með þær, þær gangi betur og slitni minna og skili bílnum lengri leið á hverjum lítra svo muni einu prósenti fyrir dísilolíuna og 2,7 prósentum fyrir bensínið. Ástæða þess er sögð vera ný bætiefni sem blandað er í bæði bensínið og olíuna sem m.a. Komi í veg fyrir sótmyndun í brunahólfum. Ekkert er hins vegar gefið upp um það hvaða efni eða efnasambönd þetta eru.

Með því að innleiða þetta nýja eldsneyti verður hætt að selja bensín sem hingað til hefur verið merkt sem Blyfri (blýlaust) 92 og 95. Þá hættir Statoil einnig að selja “ofurbensínið” Ultima sem auglýst var þannig að það yki vélarafl og hreinni bruna. Aðeins Miles eldsneyti verður framvegis í boði hjá Statoil. Þannig fækkar afbrigðum sem einfaldar augljóslega meðhöndlun og geymslu eldsneytisins og lækkar kostnað sem vegur upp á móti því að nýju íblöndunarefnin er talsvert dýr. Verð mun því ekki hækka vegna breytingarinnar. Með þessu fetar Statoil á Norðurlöndunum sömu slóð og Shell í Danmörku hefur þegar gert með sínu Fuelsave, en tæknifólk FDM, systurfélags FÍB í Danmörku segir að efnablandan í eldsneytið sé svipuð hjá Statoil-Miles og Shell-Fuelsave.

Hvað varðar bætta nýtingu bílvéla sem ganga fyrir Fuelsave eldsneyti hefur Statoil staðið að viðamiklum tilraunum og prófunum. Þær voru gerðar á nokkrum algengum gerðum af fólksbílum á mismunandi aldri og fóru fram bæði inni á rannsóknastofum með sama hætti og þegar eyðsla bíla er mæld fyrir gerðarviðurkenningu. Einnig var tilraunabílunum ekið úti í almennri umferð. Í níu þessara tilraunabíla voru dísilvélar en í fjórum bensínvélar og samtals var bílunum ekið 130 þúsund kílómetra. Á grundvelli niðurstaðnanna telur Statoil óhætt að fullyrða að eyðsla dísilbíla lækki um 1 prósent og bensínbíla um 2,7 prósent.