Leynivopnið var blaðamenn

Bob Lutz, hinn mikli og síungi bílamaður lauk löngum starfsferli í bandaríska (og evrópska) bílaiðnaðinum 78 ára gamall sl. sumar. Síðasta starfið sem hann gegndi var að stýra þróunardeild GM. Þar lagði hann mikið upp úr gæðum og góðum aksturseiginleikum bíla. Til þess að það tækist sem best réði hann til sín fjóra snjalla bílablaðamenn til að reynsluaka og gagnrýna allar nýjar gerðir GM bíla. Orð blaðamannanna fjögurra voru sem lög hjá þróunardeildinni. Þá ágalla sem þeir fundu á bílunum varð tæknifólkið og verkfræðingarnir einfaldlega að laga. Þannig var farið að við að gera Cadillac CTS að þeim ágæta akstursbíl sem hann er og sömuleiðis rafbílinn Chevrvolet Volt sem um þessar mundir er að koma í hendur fyrstu kaupendanna í Bandaríkjunum.

Ráðning blaðamannanna fjögurra fór ætíð mjög leynt, eða þar til í síðustu viku að sjónvarpsmaður, John McElroy að nafni greindi frá málinu í pistli á bílavefnum Autoblog.com. Þar segist McElroy  lengi hafa vitað af blaðamannahópnum en hafi fyrir orð Bob Lutz ekki viljað greina frá honum fyrr en nú. 

Bob Lutz var alla tíð mikið í mun að þeir bílar sem hann kom að, væru vel hannaðir og litu vel út en jafnframt traustir og áreiðanlegir. Hann þótti alla tíð hafa munninn fyrir neðan nefið og margir muna enn þegar hann fullyrti að Cadillac CTS væri besti sportlegi fjölskyldu bíll veraldar. Engar breytingar þyrfti að gera á honum svo hann dygði til kappaksturs á þar til gerðum brautum. Gangverk hans, yfirbygging og bremsur væru fyllilega nógu traust í bílnnum eins og hann kæmi af færibandinu.

Í framhaldi þessara orða Lutz skoruðu bandarískir bílafjölmiðlar á  Lutz að sanna orð sín á kappakstursbrautinni í keppni við aðra sambærilega bíla eins og Jaguar, BMW, Mercedes o.fl. Og viti menn: Cadillac CTS stóð við væntingarnar.

Fyrrnefndur John McElroy telur eins og Bob Lutz greinilega gerði, að fljótlegasta leiðin til að hækka gæðastaðalinn á bílunum hjá GM væri að fá bílablaðamenn til að prófa rækilega bílana og gagnrýna þá og gefa síðan skýrslur sína beint til Lutz sjálfs. En Lutz var mikið í mun að aðrir bílaframleiðendur fengju ekki vitneskju um þetta verklag, sem greinilega hefur skilað sér vel og eru sölutölurnar hjá GM til vitnis um það. En nú er hinn 78 ára gamli Lutz farinn á eftirlaun og leyndarmálið orðið opinbert.