Lífrænt eldsneyti rætt á ráðherrafundi

http://www.fib.is/myndir/ConnieHedegaard.jpg
Connie Hedegaard umhverfisráðherra Danmerkur.

Danska ríkisstjórnin hefur ekki áhuga á því að rækta í landinu í stórum stíl sérstaklega olíuríkar plöntur til framleiðslu eldsneytis fyrir bíla og vélar. Meiri áhugi er fyrir því að nýta úrgang frá landbúnaðinum, eins og hálm úr kornræktinni og sag og trjábörk úr skógræktinni, til framleiðslu á lífrænu eldsneyti – bensíni og olíu - með því að blanda ensýmum saman við úrgangsefnin.

Connie Hedegaard umhverfisráðherra Danmerkur segir það ekki sérlega „grænt“ hátterni að rækta eldsneyti á stórum landflæmum í stað matvæla og að það sé mjög dýr aðferð við að draga úr útblæstri koltvíildis. Nær sé að styrkja nýtækni og rannsóknir á aðferðum við eldsneytisframleiðslu með ensýmum en að hefja stórfellda olíuræktun sem muni kalla á enn frekari stuðning við landbúnaðinn.  

Umhverfisráðherrann sagði þetta á blaðamannafundi í aðdraganda fundar umhverfisráðherra Evrópusambandsríkjanna sem hefst á fimmtudag, 9. mars. Á fundinum verður m.a. fjallað um umhverfis- og orkumál. Þar hyggst danski umhverfisráðherrann tala fyrir meiri stuðningi við rannsóknir og tilraunir sem flýta fyrir því að svokölluð önnur kynslóð lífræns eldsneytis komist á almennan markað.