Lífshættulegt að sitja vitlaust í bílnum
Nýtt áreksturspróf sem ADAC; systurfélag FÍB í Þýskalandi hefur gert, sýnir svo ekki verður um villst að það er lífshættulegt að sleppa því að spenna öryggisbeltið og að sitja einhvernveginn og einhvernveginn í bílnum ef árekstur verður.
Flestir vita það vissulega að það er lífshættulegt að láta hjá líða að spenna öryggisbeltið. Færri hafa hins vegar hugsað út í það að það getur haft alvarlegar afleiðingar að sitja vitlaust í bílsætinu ef árekstur eða slys verður. Alveg nýtt áreksturspróf sem ADAC hefur gert sýnir þetta svart á hvítu að það er lífsnauðsynlegt að sitja rétt í bílsætinu. Það getur haft alvarlegar afleiðingar að sitja ekki rétt í sætinu, festa barnastólinn ranglega í bílinn og láta hjá líða að spenna beltið. Árekstursprófið sýnir meðal annars að það er lífshættulegt að liggja í framsætinu og teygja fæturna upp á mælaborðið.
Myndirnar úr árekstursprófinu sýna hvernig fæturnir þrýstast út í gegnum framrúðuna. Mikil hætta er á slæmum skurðsárum og blæðingum. Auk þess snýst upp á líkamann um mjaðmirnar og öryggisbeltið skerst inn í kviðarholið og skaðar eða eyðileggur líffæri sem þar eru. Legustellingin þýðir auk þess að manneskjan kastast fram á við í sætinu og loftpúðinn nær ekki að verja líkamann því hann í rauninni fer undir púðann. Þetta getur haft slæm höfuðmeiðsli í för með sér og jafnvel dauða sem ekki hefði orðið ef manneskjan sat eðlilega í sætinu.
Árekstursprófið sýnir fram á ýmsar aðrar tegundir meiðsla einnig sem rakin verða til þess að afstaða líkamans gagnvart loftpúða og öryggisbeltum var röng. „Loftpúðinn er viðbótar-öryggistæki sem vinnur með öryggisbeltinu. Hvorttveggja gagnast hins vegar ekki til fulls nema að sá sem notar búnaðinn sitji rétt og hann sé rétt spenntur í beltið. Það er lífsnauðsynlegt að spenna alltaf beltið og sitja uppréttur og eðlilega þegar farið er út í umferðina,“ segir Leif Nielsen fréttastjóri bílafrétta á Motor, félagsblaði FDM, systurfélags FÍB í Danmörku.
Umrætt áreksturspróf ADAC fór þannig fram að árekstursprófaðir voru tveir eins bílar. Fólkið (árekstursbrúðurnar) voru ýmist með beltin spennt eða óspennt og barnastóll var annarsvegar ranglega festur í bílinn og hins vegar rétt festur. Barnastólarnir voru annarsvegar með hryggstuðningi og hins vegar án hryggstuðnings. Þá sat framsætisfarþeginn annarsvegar í „afslöppunarstellingu“ og hins vegar eðlilega. Hér má sjá hreyfimyndskeið frá prófuninni.