Lífshættulegur bíll

The image “http://www.fib.is/myndir/Landwindkrockfront.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Kínverski slyddujeppinn Landwind er hreinn hríshrjónahaugur og lífshættulegur. Þetta er niðurstaða þýska bifreiðaeigendafélagsins ADAC sem hefur árekstursprófað jeppann á nákvæmlega sama hátt og gert er á vegum EuroNCAP. Prófunarmenn ADAC segja að þetta sé lélegasti bíllinn sem þeir hafi árekstrarprófað nokkru sinni þau 20 ár sem liðin eru síðan fyrsta ADAC- árekstrarprófið var gert.
Tæknimenn félagsins tóku bílinn einnig í hefðbundinn reynsluakstur og segja að þar hafi hann heldur ekki staðist væntingar. Hann rási á vegi, stýrið sé ónákvæmt, hemlunarvegalengdin sé of löng. Þá vanti skrikvörn og ABS hemla í bílinn og hann eyði of miklu bensíni, meðaleyðslan sé 11,6 l á hundraðið. Niðurstaða ADAC er sú að bíllinn ætti ekki að fá að seljast í Evrópu.
Við árekstursprófið gekk framhjólið afturundir bílinn. Þá gengu kúplingar- og hemlafetlar inn og uppávið sem þýðir að fætur ökumanns hefðu mölbrotnað. Einnig gekk stýrið langt inn og hefði drepið ökumanninn, hefði hann verið lifandi manneskja – þrátt fyrir loftpúðann. Talsmaður umboðsfyrirtækis Landwind segist við Aftonbladet vera undrandi á niðurstöðu árekstrarprófsins. Hann hafi verið árekstursprófaður í Kína og komið miklu betur út þar en í ADAC-prófinu.
Landwind er nú þegar kominn á markað í Evrópu eins og við höfum áður sagt frá hér á heimasíðu FÍB. Hann rennur út eins og heitar lummur enda er verðið óvenju lágt miðað við ámóta stóra bíla. Í fyrstu sendingunni sem skipað var á land í Rotterdam voru 200 Landwind jeppar sem seldust allir á broti úr degi. 500 bílar koma í næstu viku og eru allir seldir fyrirfram. Í næsta mánuði koma svo 500 til viðbótar og eru flestir þeirra þegar pantaðir.
Í Kína eru um þrjátíu bílaframleiðslufyrirtæki sem flest byggja litla vörubíla og einfalda fólksbíla auk þess þau setja saman vestræna bíla eins og t.d. BMW og VW. Nú er um tugur þessara fyrirtækja að undirbúa innrás á evrópskan bílamarkað, ekki síst með þátttöku í bílasýningunni í Frankfurt. Í Frankfurt gefur nú að líta bíla frá stærstu bílaverksmiðjunni í Kína; Geely, sem sýnir fimm gerðir. Þar gefur líka að líta bíla frá Brilliance sem sýnir m.a. stóra fjölskyldubílinn Zonghua sem væntanlegur er á Evrópumarkað innan skamms. Aftonbladet í Svíþjóð segir að byggingarlag hans sé slíkt að hann fái aldrei meir en þrjár stjörnur út úr árekstrarprófi EuroNCAP. Það geti talist viðunandi ef í hlut ætti gamall notaður bíll, en alls ekki nýr. Blaðið segir ennfremur að það gangi ekki að lífshættulegir bílar sem settir eru saman samkvæmt stöðlum sem ásættanlegir þykja í þriðja heiminum séu seldir á Vesturlöndum. Það á ekki að hleypa þeim inn fyrr en þeir eru jafn öruggir og nútímabílar eru segir blaðið.
The image “http://www.fib.is/myndir/Landwindkrockdocka.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.The image “http://www.fib.is/myndir/Landwind_crash.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.