Lítill áhugi fyrir nýjum Saab

Frá 10. desember sl. þegar framleiðsla hófst á ný í Saab verksmiðjunni í Trollhättan í Svíþjóð á Saab 9-3 Aero hefur einungis 31 bíll selst í Svíþjóð.

Kínversk-sænska fyrirtækið NEVS, sem nú á verksmiðjuna og framleiðir bílana hefur tekið frá þrjá til fjóra bíla sem áhugamenn geta fengið lánaða í reynsluakstur áður en kaup eru ákveðin. Upplýsingafulltrúi NEVS segir við Dagens Industri að vonast sé til að með því muni salan glæðast. Ekki virðist svo vera enn, því að Dagens Industri segir að einungis 15 manns hafi bókað reynsluaksturstíma.

Ef þú hefur áhuga á að reynsluaka nýjum Saab 9-3 Aero þá geturðu bókað tíma á heimasíðu NEVS. En til þess að af reynsluakstri geti orðið þarftu að gera þér ferð til Trollhättan í Svíþjóð.