Lítill Saab á leiðinni

http://www.fib.is/myndir/Saab91.jpg
Einhvernveginn svona mun nýi Saabinn líta út.
 
All lengi hafa bílablaðamenn talið sig hafa veður af því að Saab sé á leiðinni með nýjan bíl – smábíl. Nú hefur bandaríska bílablaðið Motor Trend birt teikningar af bílnum sem sögð er ættuð frá hönnuðum bílsins. Blaðið getur sér þess til að nýi bíllinn, sem nánast mun tilbúinn til að fara í framleiðslu, verði frumsýndur í London í sumar.

Motor Trend segir að um sé að ræða tveggja dyra bíl, svipaðrar stærðar og Mini Cooper. Blaðið segir að í Evrópu verði hann líklega settur á markað sem Saab 9-1 en í Bandaríkjunum sem Pontiac, Buick eða Saturn.

Sænska blaðið Dagens Nyheter telur hinsvegar sennilegt að bíllinn verði líka seldur í Bandaríkjunum sem Saab. Ástæðan sé sú að bíllinn verði fremur dýr og auðveldara sé að fá Bandaríkjamenn til að kaupa vandaða og þar með dýra evrópska bíla en samskonar bandaríska bíla. Bandaríkjamenn séu sem sé fáanlegri til að greiða betur fyrir erlent vörumerki sem hafi þokkalegt snobbgildi.