Lítilsvirðing við neytendur

Íslensku olíufélögin eru aðlöguð fákeppni og virðast stundum gleyma grunngildum góðra viðskipta um virðingu og þjónustulund gagnvart viðskiptavinum.

Í vor var hætt að selja 95 oktan bensín blandað allt að 5% með etanóli en í staðin farið einhliða að selja aðeins 95 oktan bensín með 10% etnaól íblöndun. Látið var liggja á milli hluta að upplýsa viðskiptavini, neytendur um E10 breytinguna í nokkrar vikur. Olíufélögin báru fyrir sig að fréttir um E10 breytingarnar hefðu verið birtar á heimasíðum fyrirtækjanna. Í sumum tilvikum birtust E10 upplýsingar á heimasíðu mörgum vikum eftir að farið var að selja E10 á bensínstöðvum. Að mati FÍB og líklega flestra sem láta sig málið varða er frétt á heimasíðu olíufélags ófullnægjandi upplýsingagjöf varðandi gerbreytingu á innihaldi eldsneytis. Bensíndælurnar voru merktar með E10 límmiðum nokkru eftir að sala hófst, þar fór N1 á undan snemma í maí og hin félögin fylgdu á eftir. Í kjölfar þeirra merkinga var almenningur fyrst meðvitaður um breytingarnar í gegnum fjölmiðla.

Ófullnægjandi framboð á 98 oktan bensíni

Bíleigendur hafa undanfarið kvartað yfir því að 98 oktan bensín hafi klárast á bensínstöðvum. Í frétt á Vísi um málið er haft eftir Jóni Viðari Stefánssyni, forstöðumanni verslunarsviðs N1: „Það er aukin eftirspurn eftir 98 oktana bensíni. Við vorum smá tíma að aðlaga okkur að þessu,“

Í sömu frétt á Vísi segir Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs að salan á þessu bensíni sé í mýflugu mynd þrátt fyrir aukna eftirspurn. Skeljungur sér um dreifingu á eldsneyti til systurfyrirtækisins Orkunnar. Orkan selur 98 oktan bensín á tveimur bensínstöðvum í Reykjavík og einni á Akureyri. Ef vara er ekki á boðstólum þá dregur það úr sölu.

Það er aðeins hluti landsmanna sem hefur aðgang að 98 oktan bensíni á bensínstöðvum. Hérna undir eru upplýsingar um útsölustaði 98 oktan bensíns (hafi það ekki klárast):

N1

Orkan

Tryggvabraut 12, 600 Akureyri Skógarhlíð 16, 105 Reykjavík
Straumur 9, 110 Ártúnshöfði Vesturlandsvegur, 110 Reykjavík
Borgartún 39, 105 Reykjavík Hörgárbraut, 600 Akureyri
Lækjargata 46, 220 Hafnarfjörður  
Háholt 11, 270 Mosfellsbær Olís
Hringbraut 12, 101 Reykjavík Álfabakka 7, 109 Reykjavík
Hafnargata 86, 230 Reykjanesbær Álfheimar 49, 108 Reykjavík
Áætlað á Egilsstaði, Borgarnes og Selfoss  

 

FÍB gagnrýndi það að enginn aðdragandi var að þessum breytingum á vöruvali né upplýsing frá söluaðilum til almennings. Rík krafa hvílir á seljendum að veita neytendum allar nauðsynlegar upplýsingar áður en kaup eiga sér stað. Þessi skylda byggir bæði á lögum um neytendasamninga og reglum um villandi upplýsingar samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Yfirvöld neytendamála

FÍB telur að yfirvöld neytendamála hafi brugðist í þessu breytingaferli. Það hefur ekkert verið gert til að verja neytendur og tryggja öryggi almennings vegna fyrirvaralausra breytinga á innihaldi 95 oktan bensíns . Til dæmis liggja ekki fyrir nein fyrirmæli sem tryggja neytendum valkost eins og t.d. aðgengi að 98 oktan bensíni. Málið varðar m.a. Neytendastofu vegna innihaldslýsingar vöru og villandi viðskiptahætti og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna eftirlits með öryggi vöru og mögulega brunahættu. Hægt væri að kalla einnig á viðbrögð frá Vinnueftirlitinu og Umhverfisstofnun. Engin viðbrögð hafa komið frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu sem fer með neytendamál.