Loftbíll kemur 2016

Fyrir um áratug sögðum við frá hugmyndum fransks vélaverkfræðings um að láta þrýstiloft knýja bíla. Verkfræðingurinn, Guy Négre, var búinn að byggja allmargar frumgerðir loftbíla og hanna loftvél til að knýja þá áfram. Hann reyndi að koma á fót verksmiðjum til að framleiða loftbílana en tókst ekki að afla fjár til þess. Á endanum keypti Tata Motors í Indlandi hugmynd Guy Négre og fyrirtæki hans MDI og ef marka má heimasíðu MDI er mönnum full alvara að hefja framleiðslu á loftknúnum bílum tvíorkubílum.

Samskonar hugmyndir eru uppi hugmyndir hjá PSA (Peugeot-Citroen) nema þar ganga þær út á tvinnbíl sem gengur fyrir bæði þrýstilofti og bensíni. Bíllinn er sagður koma á almennan markað árið 2016.

Tvíorkubúnaður PSA hefur verið þróaður í samvinnu við Bosch í Þýskalandi og kallast Air Matic. Þetta er fremur einfalt kerfi loftgeyma, röra og ventla. Þrýstiloftið í tönkunum knýr vökvadælu eða dælur sem einar og sér geta knúið bílinn áfram eða þá í samvinnu við bensín- eða dísilmótor. Þegar hemlað er, dæla vökvadælurnar lofti til baka inn á geymana og í jöfnum akstri sér bensínvélin um að hlaða lofti inn á geymana á svipaðan hátt og bensínvélin í Prius sér um að hlaða rafstraumi inn á rafgeyma bílsins. Með þessari tvinntækni vonast menn til að ná bensíneyðslu meðalstórs fólksbíls niður í þriggja lítra meðal-bensíneyðslu á hundraðið.

Það er sérstaklega á lágum hraða í borgarakstri sem þetta þrýstiloftskerfi nýtist og samkvæmt frétt frá PSA segir að 60-80 prósent alls þéttbýlisaksturs geti farið fram á lofti einvörðungu. Helsti kosturinn við þetta loft-tvinnkerfi er sagður sá að það sé miklu ódýrara í framleiðslu og rekstri en rafmagnskerfi og auk þess léttara. Smábíll með loft-tvíorkukerfi eigi ekki að verða meir en ca 100 kílóum þyngri en samskonar bíll án kerfisins.