Loftið í glænýjum bílum er þrælmengað óhollustuefnum

The image “http://www.fib.is/myndir/PTCr.mael.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Það er eins gott að draga ekki djúpt andann í nýjum bílum því „nýlyktin“ er full af óhollustu og efnum sem beinlínis eru heilsuspillandi. -Andið því rólega í nýja bílnum – segir þýsk umhverfisstofnun, -lyktin getur framkallað slæm astmaköst og ofnæmisviðbrögð, - segir stofnunin.
Stofnun þessi nefnist Bund für Umwelt und Naturschutz. Á hennar vegum og austurrískrar sams konar stofnunar hefur nýlyktin verið efnagreind í nýjum Opel Astra, Mercedes E220, Renault Megane, VW Golf, Alfa Romeo og Mitsubishi Colt og niðurstaðan er ekki sérlega frýnileg.
Verst eru ýmis leysiefni, efni sem notuð eru sem mýkingarefni í plastiðnaði og formaldehýð en öll geta þessi efni skaðað slímhimnur manna. Alls greindust  98 efnasambönd af slíku tagi. Magn þessara skaðlegu efna reyndust í flestum tilfellum yfir viðmiðunarmörkum og jafnvel mjög langt yfir þeim.
Þannig reyndist formaldehýð vera þrefalt yfir viðmiðunarmörkum fyrir innanhússloft að því er kemur fram í norska blaðinu Verdens Gang. Heimildarmaður blaðsins segir að magn formaldehýðs og annarra skaðlegra efna sé svo mikið að það nægi fyllilega til að kalla fram astmaköst hjá viðkvæmu fólki.
Japanskir bílaframleiðendur hafa að sögn Verdens Gang sammælst um að reyna að draga sem mest úr þessu ólofti í nýjum bílum og markmið þeirra mun vera að ná því niður í viðmiðunarmörk fyrir inniloft. Hvenær það takmark á að nást er hins vegar óvíst.