Löggan í þjóðvegaránum

http://www.fib.is/myndir/Tenaha.cityhall.jpg
Lögreglustöðin í Tenaha í Austur Texas við landamæri Louisiana.

Lögreglan í smábænum Tenaha í Austur-Texas sættir nú  ákæru fyrir að hafa kerfisbundið um langt skeið stundað þjóðvegarán í lögsagnarumdæmi sínu. CNN fréttaveitan greinir frá þessu.

Maður að nafni Roderick Daniels frá Tennessee segir við CNN að hann hafi árið 2007 verið akandi úti á þjóðvegi 59 skammt utan við Tenaha í A. Texas þegar hann var stöðvaður af lögreglumönnum á bíl. Lögreglumennirnir sökuðu Daniels um að hafa ekið á 37 mílna hraða þar sem var 35 mílna hámarkshraði. Þeir hafi síðan skipað honum að láta af hendi skartgripi og 8.500 dollara sem hann hafði með sér í reiðufé þar sem hann var á leið að kaupa sér nýjan bíl. Þegar hann þrjóskaðist við, hafi lögreglumennirnir handtekið hann og fært í varðhald og hótað að ákæra hann fyrir peningaþvætti. Þeir hafi hins vegar heitið að láta hann lausan ef hann undirritaði afsal fyrir fjármunum sínum. Daniels undirritaði afsalið og segist við CNN hafa verið sem steini lostinn og óttasleginn enda fimm til sex hundruð mílur frá heimili sínu. Hann hefi einfaldlega ekki talið sig eiga aðra kosti.

Daniels og talsverður hópur fólks hefur nú kært lögregluna í Tenaha og lögmaður að nafni David Guillroy sem starfar hjá saksóknara fer með málið fyrir hönd hinna rændu. Guillroy segir ljóst að lögreglan hafi kerfisbundið rúið aðkomuökumenn sem lögðu leið sína í gegn um þennan þúsund manna smábæ. –Þetta hefur verið hrein sjóræningjastarfsemi af hálfu lögreglunnar og þeir hafa beitt ógnunum segir Guillroy.

Bæði bæjarstjórinn í Tenaha og sýslumaðurinn í Shelby sýslu harðneita ásökunum og segja að ekkert ólöglegt hafi átt sér stað. Samkvæmt lögum Texasríkis megi lögregla leggja hald á peninga og aðra fjármuni eiturlyfjasala. En Guillroy bendir á að haldlögðum verðmætum verði samkvæmt sömu lögum að skila til baka ef ekkert opinbert mál er höfðað innan tiltekins frests. Lögregluyfirvöld í Tenaha hafi hins vegar aldrei hvorki höfðað mál á hendur hinum „grunuðu“ né skilað neinum fjármunum til baka.

Hjón nokkur sem, eins og Roderick Daniels, voru stöðvuð af lögreglunni í Tenaha með hátt í 6 þúsund dollara meðferðis til bílakaupa, segja að sýslumaðurinn í Shelby sýslu hafi neytt þau til að afsala sér fjármununum með því að hóta þeim að taka börn þeirra af þeim að öðrum kosti.

Lögmaðurinn David Guillroy sem fer með mál þeirra Roderick Daniels og hjónanna fyrrrnefndu segir að lögreglan og sýslumaðurinn hafi einkum ráðist að fólki sem tilheyrði einhverskonar þjóðernisminnihluta. Ljóst sé að yfirvöldin í Tenaha hafi þannig valið sér fórnarlömb sem ólíkleg væru til að svara fullum hálsi. Hann telur að lögreglan hafi með þessum hætti krafsað til sín um þrjár milljónir dollara á árunum 2006-2008 frá 150 manns. Öll fórnarlömbin hafi verið af afrískum eða s. amerískum ættum.