Lögreglan með hefðbundið eftirlit

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með hefðbundið eftirlit um verslunarmannahelgina eins og jafnan áður að því er fram kemur í tilkynningu. Áherslan í sumar hefur m.a. verið á eftirlit með hraðakstri, notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar, ferðavögnum/eftirvögnum og hættulegum framúrakstri.

Það er ánægjulegt að sjaldnast hefur verið ástæða fyrir lögreglu til að kæra vanbúna eftirvagna/ferðavagna, en í nokkrum tilvikum hefur ökumönnum verið bent á atriði sem þeir þurfa að laga, t.d. að framlengja hliðarspegla þegar ökutæki draga breiða eftirvagna. Því miður eru líka alltaf einhverjir sem leyfa sér að virða ekki reglur um hámarkshraða, auk þess að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur en ekki þarf að fjölyrða um þá hættu sem það skapar í umferðinni.

Flestar aðfinnslur gátu ökumenn lagað á vettvangi eða ábendingarnar fóru með ferðalöngunum sem gott veganesti. Í flestum tilvikum virðast ferðalangar því huga vel að ástandi ferðavagna/ökutækja og passa að fyllsta öryggis sé gætt. Ekki má heldur gleyma mikilvægi þess að þeir sem eru með ferðavagna/eftirvagna í eftirdragi virði reglur um hámarkshraða, en þeir geta nú ekið á allt að 90 km hraða þar sem slíkt er leyfilegt á þjóðvegi, en þá er miðað við bestu aðstæður og nauðsynlegt að hafa það í huga.

Í tilkynningunni kemur fram að auk aksturs á löglegum hraða er líka nauðsynlegt að ökumenn og farþegar spenni ávallt beltin, yngri börnin séu í þar til gerðum barnabílstólum, og að sjálfsögðu eiga allir ökumenn að vera allsgáðir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur alla vegfarendur til þess að sýna þolinmæði, sem er ómissandi í umferðinni, og gæta skal sérstakrar varúðar við framúrakstur. Lögreglan verður einnig vera með aukið eftirlit með umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu um helgina.