Lögregluinnrás í höfuðstöðvar VW

Saksóknarar og lögregla réðust inn í höfuðstöðvar Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi fyrr í dag. Þar leituðu þeir og lögðu hald á gögn sem tengjast tengjast hugbúnaði VW sem falsar niðurstöður mengunarprófana á dísilbílum. Hin haldlögðu gögn munu vera bæði pappírsskjöl og tölvugagnageymslur (harðir diskar).

Allt þetta mál hefur valdið VW, þessum stærsta bílaframleiðanda Evrópu, gríðarlegum vandræðum og álitshnekki – þeim versta í 78 ára sögu VW. Verð hlutabréfa í fyrirtækinu hefur hrapað um rúman þriðjung á þeim þremur vikum sem liðnar eru frá því að upp komst um málið. Það hefur auk þess að skaða VW, stórskaðað orðspor þýsks bílaiðnaðar, sem án vafa á eftir að draga langan og óþægilegan dilk á eftir sér. Yfirvöld bæði í Þýskalandi og í Bandaríkjunum sem og yfirvöld Evrópusambandsins líta á málið sem sakamál og leggja hart að stjórnendum VW að benda á þá sem vissu af fölsunarhugbúnaðinum og á þá sem fyrirskipuðu smíði og notkun hans.

Forstjóri VW í Bandaríkjunum, Michael Horn hefur nú játað skriflega fyrir bandarískri þingnefnd að hann hafi lengi vitað af svindlinu. Honum hafi verið kunnugt um hugbúnaðinn og virkni hans frá því vorið 2014, einum 18 mánuðum áður en VW í Bandaríkjunum viðurkenndi tilveru hans, tilgang og notkun fyrir þremur vikum. Í skriflegu játningunni sem birt er á heimasíðu fulltrúadeildar bandaríska þingsins segist hann þá hafa verið upplýstur um þetta af verkfræðingum fyrirtækisins en nafngreinir þá ekki. Hann segir að þessir verkfræðingar hafi þá lýst sig fúsa til að tilkynna yfirvöldum um falshugbúnaðinn og vinna með því að upplýsa málið. Því vekur það nokkra furðu að það hafi ekki gerst fyrr en 5. september sl. að yfirvöldum var tilkynnt um fölsunarbúnað (defeat devices) í nokkrum gerðum fólksbíladísilvéla.