Loks hægt að endurvinna gömul dekk?

Þýski hjólbarðaframleiðandinn Continental hefur hannað og þróað fyrstu vélina í heiminum sem dugar til að skilja að gúmmíið og stálvírnetið í gömlu dekkjunum. Þar með er það orðið mögulegt að endurnýta með hagkvæmum hætti gúmmíið í ný dekk og bræða stálið í vírnum upp og endurnýta. Þessi nýja vél er í rauninni heimsfrétt því að hingað til hefur endurvinnsla gamalla hjólbarða enganveginn talist borga sig og þess vegna hafa ógurlegir haugar af gömlum dekkjum orðið til hingað og þangað um veröldina.

Hjá Continental nefnist þessi heimsnýjung fellibylsvélin (Hurricane Machine). Hún er hönnuð og þróuð af Dr. Martin Theusner sem áður var yfirmaður umhverfismála hjá Continental. Hann segir við þýska fjölmiðla að vélin rífi dekkin í sundur og aðskilji vírinn og gúmmíið. Á starfsstöðvum Continental um heiminn falli til mikið magn gúmmíþakins stálvírs. Í stað þess að skilgreina þetta sem úrgang hefðu menn viljað finna hagstæða leið til að geta endurnýtt þessi mikilvægu efni. Það sé nú orðið mögulegt fyrir tilstilli nýju vélarinnar. Hún rífi gúmmíið niður í kornaðan mulning en sterkir seglar veiða síðan stálvírinn endanlega frá gúmmímulningnum.

Stálvírinn er síðan seldur til stálbræðslustöðva en Continental nýtir sjálft gúmmíið til framleiðslu á nýjum dekkjum fyrir vöru- og fólksflutningabíla.

Fellibylsvélin (The Hurricane Machine) er aðeins ein í heiminum enn sem komið er. Hún er í dekkjaverksmiðju Continental í  Puchov í Slóvakíu og er í fullum gangi við að rífa í sundur dekk frá flestum starfsstöðvum Continental í Evrópu og vinna hráefni í ný dekk.