Loks nýr Land Rover Defender
Nú er að verða hátt í áratugur síðan byrjað var að tala um að gamli Land Roverinn, Defenderinn væri að komast á síðasta snúning, framleiðslu hans yrði hætt fljótlega og nýr væri á leiðinni. Síðan gerðist ekkert nema það að gamli Landróverinn hélt bara áfram að vera til og taka ýmsum smábreytingum í áranna rás. En ennþá er sama gamla svipmótið frá 1949 á honum.
En nú er loks eitthvað að gerast. Land Rover ætlar að sýna nýjan hugmyndarbíl, DC100 Concept, á bílasýningunni í Frankfurt sem opnuð verður eftir hálfan mánuð. Óskað er eftir athugasemdum og umræðum um nýja bílinn sem hugsaður er sem arftaki gamla Defendersins. Hugmyndarbíllinn er fjarri því að vera tilbúinn í fjöldaframleiðslu heldur er hann hugsaður sem upphaf að fjögurra ára þróunarferli til nýs Landróvers - arftaka Defenders.
Það er auðvitað ekkert smá mál að finna arftaka að jafn langlífum bíl og þekktum. Defender er vissulega orðinn ansi úreltur í ýmsu tilliti og hvernig svo sem lendingin verður með útlit arftakans verður sá nýji allur annar í tæknilegu tilliti. Stærsti vandinn verður vafalítið að týna ekki sérkennum eins og aksturstilfinningu og meginsvip í nýjum og tæknilega fullkomnari, léttari, sparneytnari bíl og jafnframt mun ódýrari í framleiðslu.
En þrátt fyrir að gamla Land Rover útlitið sé þekkt allsstaðar í heiminum og njóti virðingar þá hefur salan verið að dragast saman undanfarin ár og á síðasta ári varð heildarsala Defender jeppanna í heiminum minni en 20 þúsund bílar. Þannig er ljóst að Defender stenst japönskum jeppum og pallbílum enganveginn snúning.