Loksins, loksins

Fyrsta ökugerðið á Íslandi var tekið í notkun á Akureyri í nóvembermánuði sl. Þótt veturinn hafi gengið snemma í garð nyrðra og af þeim sökum kannski ekki gefist mikið ráðrúm síðustu vikurnar til að nýta gerðið til fulls sökum vetrarveðra, þá er þetta forna baráttumál mjög margra sem efla vilja kunnáttu ökunema og ökumanna almennt í akstri og viðbrögðum við hættuástandi, loks komið í höfn nyrðra. Fyrsta ökugerðið á Íslandi er orðið að veruleika sem er verulegt fagnaðarefni.

http://www.fib.is/myndir/Ak-bilabraut.jpg

Það er ekki síst Bílaklúbbur Akureyrar sem hefur haft frumkvæði að ökugerðinu í samvinnu við ýmsa aðila, eins og ökukennara, bæjaryfirvöld o.fl. Sjálft ökugerðið eða kennslusvæðið er vel búið og þar er m.a. að finna sérstaka hálkubraut til að kenna fólki hvað gerist þegar veggrip bílsins hverfur og hvernig bregðast skal við hættuástandinu. Sannleikurinn er nefnilega sá að hin eðlisbundnu ósjálfráðu viðbrögð fólks sem finnur sig vera að missa stjórnina á bílnum eru oftar þannig að þau geta gert illt verra. Kunnátta og þjálfun er lykill að öruggum akstri.

Sl. haust fór fram sérstakt námskeið nyrðra fyrir ökukennara í nýja ökugerðinu um kennslu í því. Þar leiðbeindi sérfræðingur frá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku ökukennurunum og  hafa fimm íslenskir ökukennarar nú öðlast réttindi til kennslu í ökugerði.

Full ástæða er til að óska aðstandendum fyrsta ökugerðisins á Íslandi til hamingju og framtíðarstarfsemi þess og vonandi fleiri ökugerða í landinu, fylgja góðar óskir FÍB.

Hér má sjá viðtal N4 sjónvarpsstöðvarinnar við Kristin Örn Jónsson um kennslu í ökugerðinu.