Lotus léttir Toyotabíl

-Þyngdin er versti óvinurinn sagði Henry Ford yngri eitt sinn í viðtrali við evrópskt bílatímarit. Það eru orð að sönnu því að hvert einasta kíló sem tekst að losna við úr bílum er bein ávísun á minni eldsneytiseyðslu. Það hefur reynst erfiður slagur að draga úr þyngd bílanna því að samhliða kröfum um minni eldsneytiseyðslu hafa kröfur um aukið öryggi bílanna leitt til aukinnar þyngdar þeirra. Það þarf því að hugsa bílinn upp á nýtt, finna ný efni til að byggja hann úr og hanna hann á nýjan hátt. Þetta hefur nú sportbílaframleiðandinn Lotus gert og skrifað merka skýrslu um það sem lögð var fram á ráðstefnu í Bandaríkjunum um hreinar samgöngur. Við getum því vonast til að tími léttu bílanna sé senn að renna upp og óhætt er að segja að Lotus sé ágætlega að því kominn að vísa veginn í þá átt.
Lotus var stofnað 1952 af vélaverkfræðingnum og flugmanninum  Colin Chapman sem var sérfróður í borðarþolsfræðum. Þeir sportbílar og hverskonar keppnisbílar sem byggðir hafa verið hjá Lotus hafa alla tíð verið byggðir þannig að þeir séu sem allra léttastir en jafnframt sterkir. Í bílunum hefur alltaf verið leitast við að hafa ekkert í þeim sem ekki er algerlega bráðnauðsynlegt. Einn frægasti bíll Lotus er sportbíllinn Elise sem er bæði níðsterkur en þó fisléttur, eða undir einu tonni að þyngd. Geta má þess að rafbíllinn Tesla Roadster er í grunninn Lotus Elise.
Í áðurnefndri skýrslu um létta bíla og hvernig eigi að búa þá til, ganga verkfræðingar og hönnuðir Lotus út frá vejulegum bandarískum Toyota Venza fjölnotabíl sem er með fremur lítilli V6 vél á bandarískan mælikvarða. Bíllinn er nánast krufinn til mergjar til að sýna fram á hvernig má byggja hann þannig að hann verði 38 prósentum léttari en verði þó einungis þremur prósentum dýrari í framleiðslu. þessum markmiðum sýna Lotus menn fram á að hægt sé að ná með því að endurhanna burðarhluta bílsins og yfirbyggingu og breyta framleiðsluaðferðum.

Þetta verkefni þeirra Lotus-manna var unnið að tilhlutan bandarísku orkustofnunarinnar sem vildi að sýnt yrði fram á fá að hægt væri að ná því að létta bíla um 33 prósent og þannig draga úr eldsneytisnotkun þeirra um 27 prósent. Lotus skaffaði sér þá nýjan Toyota Venza árgerð 2010 sem þvínæst var tekinn í sundur stykki fyrir stykki. Síðan var gerð nákvæm greining á efni, hönnun og smíði hvers einasta hlutar í yfirbyggingu og burðarvirki bílsins og sýnt fram á hvernig betur mætti gera með hliðsjón af styrk og efnismagni og hvernig gera mætti breytingarnar í áföngum fram til ársins 2020 án þess aða bíllinn yrði dýrari fyrir kaupendur hans.

Yfirbygging Toyota Venza og burðarhlutar hennar er nú samsett úr yfir 400 hlutum sem samtals vega 382 kíló. Eftir endurhönnun Lotus-manna fækkar þessum hlutum niður í 211 og þyngdin minnkar um 37 prósent. Léttingin er ekki síst vegna þess að í stað stáls koma léttmálmar eins og ál (37%), magnesíum (30%), koltrefjaefni (21%) og léttstál (7%). Þannig verður yfirbyggingin 221 kíló.

Samtals er skýrslan rúmlega 300 bls. Hægt er að hlaða henni niður hér.