Lundúnaleigubílar á rafmagni

Í mörgum stærstu borgum Evrópu hafa yfirvöld þá langtímastefnu að koma útblæstri frá leigubílum og stærri og minni fólksflutningabílum niður í núll innan miðborgarsvæðanna. Flestir vilja gera þetta í áföngum og byrja á því að setja reglur um að CO2 útblástur frá nýjum leigubílum og minni fólksflutningabílum fari ekki yfir 100 grömm á ekinn kílómetra.

En Boris Johnson borgarstjóri Lundúnaborgar vill ganga lengra. Hann hefur nú þegar innleitt borgarreiðhjól sem aðgengileg eru hverjum sem er, fengið setta reglugerð um að leigubílar verði að uppfylla Euro-5 mengunarstaðalinn og megi auk þess aldrei verða eldri en 15 ára. Ennfremur hafa vélar og annar búnaður í rauðu strætisvögnunum í borginni verið endurnýjaður til að draga úr mengun frá þeim.

En Boris vill halda áfram og hefur snúið sér að svörtu leigubílunum og leitað tillagna frá fimm bílaframleiðendum um bíla sem pústa engu út þegar þeim er ekið innan skilgreinds miðborgarsvæðis þar sem loftmengun skal vera sem allra minnst (Ultra Low Emission Zone  - innan þeirra verða brunahreyfilsbílar hreinlega bannaðir innan ekki margra ára). Jafnframt hvetur hann eigendur leigubílanna til að fárfesta sem allra fyrst í slíkum bílum og hefur fengið Green Investment Bank til að fjármagna endurnýjunina. Samhliða þessu eru borgarstarfsmenn þessa dagana að fjölga hleðslustöðum fyrir rafbíla í borginni úr 1.400 í 6.000. Margir þeirra eru einvörðungu ætlaðir leigubílum.

En þótt rafbílatæknin batni stöðugt þá er drægi rafbíla ennþá skemmra en brunahreyfilsbílanna og hleðslutíminn mun lengri en sá tími sem tekur að fylla á tankinn á bensín- eða dísilbíl. Leigubílarnir í Londun er ekki bara að skjótast milli húsa og hverfa í Mið-London heldur sækja þeir og skila farþegum m.a. til og frá og á milli alþjóðaflugvallanna umhverfis borgina; Heathrow, Gatwick, Luton og Stanstead og þá er nú eins gott að verða ekki rafmagnslaus á miðri leið. Lausnin er því sú að leigubílarnir, a.m.k. einhverjir þeirra séu tvíorkubílar.

Bílaframleiðendurnir hafa tekið vel undir með Boris borgarstjóra og Mercedes er tilbúinn með tvíorku-leigubíl byggðan á Mercedes Vito og Nissan tilbúinn með NV200 rafbílinn. Þá vinna framleiðendur gömlu og góðu Lundúnaleigubílanna, LTC, að því að gera bílana að tengiltvinnbílum. LTC er nú í eigu kínverska bílafyrirtækisins Geely sem eyrnamerkt hefur 200 milljón pund til þessarar vinnu. Hið tyrkneska Karsan er einnig með í leiknum með bílinn sem sjá má á myndinni. Karsan hefur unnið að þessum bíl í samvinnu við breskt hönnunarfyrirtæki sem heitir Hexagon og við konunglega breska listaháskólann Royal College of Art þar sem flestir fremstu bílahönnuðir samtímans hafa menntast.