Lutz sagði satt

Bob Lutz framkvæmdastjóri bílaframleiðslu GM reyndist hafa á réttu að standa í fullyrðingum sínum um að Cadillac CTS-V væri hraðskreiðasti óbreytti lúxus-ofurfólksbíll veraldar. Hann skoraði á alla sem vildu og þorðu að reyna sig við Kadillakkinn á kappakstursbraut og í gær fór keppnin fram á kappakstursbraut Monticello Motor Club í New York og úrslitin eru komin - Cadillac CTS-V er sá fljótasti. En BMW M3 veitti Kadillakknum harða keppni. En það var að vísu ekki hinn 77 ára gamli Bob Lutz sem sló BMW bílinn út, heldur GM-reynsluökumaðurinn og kappaksturskappinn bandaríski, John Heinricy.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac2.jpg
Bob Lutz og Wes Siler t.v. ræða málin fyrir keppni í gær.

Bob Lutz er hógvær á bloggsíðu sinni þar sem hann lýsir atburðum gærdagsins á kappakstursbrautinni og segir að allir sem þátt tóku séu sigurvegarar og hafi átt góðan dag á brautinni. En auðvitað sleppir hann ekki að minnast á það að af þeim bílum sem þátt tóku í atburðinum í gær reyndust sex Cadillac CTS-V og einn BMW M3 með bestu brautartímana. Aðrir bílar sem þátt tóku í gær voru lengur að fara hringinn en þessir sjö efstu.

Þegar menn mættu í gærmorgun á brautina hafði rignt mikið dögum saman og þessi hlykkjótta og verulega mishæðótta braut var rennvot. en það stytti upp og brautin þornaði. Sjálf brautin er mishæðótt og beygjurnar á henni eru 18 talsins þannig að aðstæðurnar töldust ekki gagnlegar fyrir stóran, afturhjóladrifinn og þungan bíl eins og Cadillac. Léttari bílar með fjórhjóladrifi, eins og t.d.Mitsubishi EVO voru af ýmsum taldir sigurstranglegri. Þannig var búist við að bílablaðamaðurinn og kappaksturskappinn  Wes Siler frá Jalopnik bílavefnum sem keppti á einmitt  Mitsubishi EVO ætti eftir að fara með sigur af hólmi, en það fór á annan veg. Það var einmitt Wes þessi sem upphaflega hafði fengið Jaguar XFR til að etja kappi við Cadillac, en Jaguar dró bílinn út úr keppninni á síðustu stundu og gaf þær skýringar að bremsurnar gætu ofhitnað í látunum. Sá sem ók BMW M3 bílnum og hreppti annað sætið heitir Michael Cooper en hann ók á eigin bíl á eigin vegum.

Það varð semsé ekki Bob Lutz sjálfur sem stóð uppi sem sigurvegari - og þó. Hann hafnaði meðal tíu efstu sem varla getur talist slæmt þegar 77 ára gamall maður á í hlut. En það er greinilegt að karlinn hefur skemmt sér vel í gær því að hann segir á bloggi sínu að hann óskaði þess að hafa byrjað fyrr á ævinni að stunda bílasport. En nú væri rétt að byrja að huga að  nýjum uppákomum.

Úrslit í „The Cadillac V-Series Challenge" á Monticello

1.  John Heinricy á CTS-V: 2:46:560
2.  Aaron Link á CTS-V: 2:48:902
3.  Brian Redman á CTS-V: 2:49:596
4.  Michael Cooper á BMW M3: 2:50:424
5.  Jack Baruth á CTS-V: 2:51:153
6.  Lawrence Ulrich á CTS-V: 2:53:157
7.  Bob Lutz á CTS-V: 2:56:321
8.  Michael Mainwald á BMW M5: 3:05:398
9.  Wes Silerá Mitsubishi EVO: 3:08:126
10. Chris Fairman á CTS-V: 3:14:292
11. Archan Basu á Jaguar XF: 3:15:670
12. Tom Loder á Audi RS4: 3:15:702