Lúxusbílar seljast sem aldrei fyrr

Sala á venjulegum bílum í Evrópu á sl. ári var sú minnsta sl. 19 ár – að lúxusbílunum undanskildum. Hjá framleiðendum þeirra var engin kreppa heldur þvert á móti var árið það besta nokkru sinni. Salan á lúxusbílum í Evrópu jókst um 21% í fyrra miðað við árið á undan. Hvort þetta sé merki um stórvaxandi misskiptingu skal ekki reynt að skilgreina hér, en umhugsunarefni er það vissulega.

Rolls Royce er að sögn talsmanna fyrirtækisins stærsti framleiðandi ofurlúxusbíla – bíla sem kosta frá 200 þúsund evrum (34 milljónum króna). Þó viðurkenna Rollsmenn að Bentley selji örlítið fleiri bíla, en Bentley bílar séu í aðeins lægri verðflokki en Rollsarnir. Salan á Rolls Royce bílum í Evrópu í fyrra varð 12% meiri en árið á undan

Bentley framleiddi og seldi í fyrra alls 8.510 bíla en það er 22 aukning frá árinu á undan. Söluaukningin í Evrópu milli 2011 og 2012 varð 12%.

Árið 2012 var besta ár Porsche til þessa. Salan miðað við árið á undan jókst um 19% og samtals seldust 141.075 bílar.

Og ekki gekk síður hjá Lamborghini sem er að fullu í eigu Volkswagen. Alls seldust 2.083 bílar af tegundinni en það er 30% meira en seldist 2011.

Ferrari hefur ekki enn skilað ársuppgjöri fyrir 2012 en samkvæmt uppgjöri fyrstu níu mánaða ársins stefndi þá í algert metár hjá Ferrari. Strax þá höfðu 6% fleiri bílar selst en allt árið á undan, eða samtals 5.267 bílar.

Mjög vel gekk í fyrra hjá Jaguar-Land Rover, JLR, sem er að fullu í eigu Tata Motor í Indlandi. Í heild jókst salan um 32% og í kreppuhrjáðri Evrópu einni varð aukningin miðað við árið 2011, 37% hvorki meira né minna.

Skínandi vel gekk einnig hjá þýsku lúxusmerkjunum. Aukningin hjá BMW varð 11,6%  og alls seldust 1.540.085 bílar. Hjá Audi varð aukningin 11,7% og seldust 1.455.100 bílar. Vöxturinn varð heldur hægari hjá Mercedes-Benz, eða 4,7% og seldir bílar urðu 1.260 912.

Dótturfyrirtæki Mercedes Benz; AMG sem uppfærir nýja Benz bíla á ýmsan máta, jók sinn hlut um 30% á síðasta ári miðað við 2011 og seldi 24.500 bíla.