Magna eignast Opel

http://www.fib.is/myndir/Magnalogo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Opel_Logo.jpg

Magna International og General Motors undirrituðu viljayfirlýsingu í gær um að kanadíska íhlutaframleiðslufyrirtækið Magna eignist meirihluta í GM-Europe, þ.e. Opel í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi. Búist er við að endanlegur kaupsamningur verði frágenginn og undirritaður í lok júní.

Magna er eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum. Það er stofnað af Austurríkismanninum Frank Stronach. Magna er með starfsemi víða um heiminn, m.a. í Steyr í Austurríki þar sem byggðir eru bílar m.a. fyrir Chrysler, sem og ýmsir sérhæfðir bílar.

Þýska ríkisstjórnin hefur heitið nýjum eiganda Opel hagstæðu láni og ábyrgðum upp á 1,3 milljarða evra. Evrópskir fjölmiðlar greina frá því að Frank Stronach hafi í gær átt fund með Frank-Walther Steinmeier aðstoðarkanslara Þýskalands og að þeir hafi orðið ásáttir um aðkomu þýska ríkisins að kaupunum.

Samkvæmt þessum fregnum er ljóst að Fiat er úr sögunni sem nýr meirihlutaeigandi Opel. Aðstoðarkanslarinn, Steinmeier, hafði í gær í tvígang boðað til fundar með fulltrúum Magna og Fiat. Sergio Marchionni forstjóri mætti ekki til þess fundar og þar með varð ljóst að Magna hafði unnið kapphlaupið um Opel.

Nú mun vera ljóst að General Motors verður ekki bjargað og fastlega er reiknað með því að þetta fyrrum stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar verði lýst gjaldþrota á mánudag. Þýsku ríkisstjórninni er mikið í mun að tryggja framtíð Opel svo fyrirtækið lendi ekki inni í þrotabúi GM. Til að forða því þarf viljayfirlýsing um sölu Opel að liggja fyrir og ný bráðabirgðastjórn fyrirtækisins að vera tekin til starfa þegar en GM verður lýst gjaldþrota.