Magna framleiðir íhlutina

Bíla- og íhlutafyrirtækið Magna sem vildi kaupa Opel í Þýskalandi en fékk ekki þegar GM hætti óvænt við að selja, varð hlutskarpast í útboði hjá GM um að framleiða íhluti í nýja opna útgáfu „retro“ (fortíðarútlítandi) sportbílsins Chevrolet Camaro. Þessi nýi Chevvrolet Camaro Convertible eins og hann heitir, var sýndur sem hugmyndarbíll á Detroit bílasýningunni 2007 en þá brast á kreppa í Bandaríkjunum sem GM fór sannarlega ekki varhluta af, og framleiðslu bílsins var frestað. En nú á semsé að taka til óspilltra málanna og framleiðsla hefst í Oshawa-verksmiðjunni i Kanada fljótlega.

 Þegar GM tilkynnti að hætt væri við að selja Opel töldu stjórnendur Magna sig illa svikna. Samningurinn nú milli GM og Magna gæti virst sem merki um að menn hafi ákveðið að vera sáttir, því að sterklega var búist við að þýska fyrirtækið Edscha AG fengi framleiðslusamninginn.

Í þeirri kreppu sem nú virðist víðast hvar í rénun (nema kannski á Íslandi) hefur sala opinna sportbíla hrunið. En nú búast menn við bjartari tímum og að salan taki að glæðast. Chevrolet Camaro er ætlað að keppa við Ford Mustang sem gengið hefur afar vel í Bandaríkjunum undanfarin ár, eða eftir að nýjasta gerðin kom fram. Þessi nýi Camaro, líkt og Ford Mustang, líkist mjög upphaflegu Camaro gerðinni frá sjöunda áratugi sl. aldar.