MAN hættir við Scania

http://www.fib.is/myndir/MAN-logo.jpghttp://www.fib.is/myndir/Scanialogo.jpg

Þýska vörubílafyrirtækið MAN, sem á 14,27% í sænska vörubílafyrirtækinu Scania, hefur lagt á hilluna allar áætlanir um að eignast alfarið Scania gegn vilja annarra stórra hluthafa; sem eru Volkswagen með 18,7% hlut og sænska fjárfestingafélagið Investor AB með 11,5%. Fulltrúar Investor AB og Volkswagen hafa lagst harðlega gegn yfirtökuhugmyndum MAN á Scania.

Undanfarna mánuði hefur stjórn MAN leitað fast eftir samkomulagi við Investor og Volkswagen um yfirtöku og buðu hæst 10,5 milljarða evra í eignarhlutina sem var hafnað. Sl. þriðjudag lýsti stjórn MAN því yfir að kaup á Scania væru ekki lengur á dagskrá og að frekari tilraunir til fjandsamlegrar yfirtöku myndu hvorki gagnast MAN né Scania.

Allir þessir aðilar eru nú orðnir sammála um að halda áfram viðræðum með það fyrir augum að ná samningum um „vinsamlega“ samvinnu milli MAN, Scania og vörubíladeildar Volkswagen - samvinnu sem styrkir þá alla í samkeppninni við aðra framleiðendur stórra og smárra vörubíla, ekki síst DaimlerChrysler og Volvo.

Samkvæmt frétt Auto Motor & Sport í Svíþjóð gera menn því skóna að Svíinn Håkan Samuelsson forstjóri MAN segi af sér nú þegar málum er komið á þennan veg. Því harðneitar talsmaður MAN. Ferdinand Piëch talsmaður Volkswagen segir að allur málatilbúnaður MAN hafi byggst á rangri aðferðafræði en fagnar vinsamlegum viðræðum sem framunan séu.

En hefði nú svo farið þá hefði vafalaust þurft að finna nýtt nafn á bæði MAN og Scania vörubíla. Sigurður Hreiðar blaðamaður og höfundur Sögu bílsins á Íslandi 1904-2004 er mikill húmoristi. Hann taldi sjálfgefið að nýja nafnið yrði – MANÍA.