Markviss uppbygging innviða vegna orkuskipta í samgöngum

Hraðhleðslustöðvum við þjóðveginn verður fjölgað verulega og blásið verður til átaks með ferðaþjónustunni til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum, sem hafa víðtæk áhrif á samsetningu bílaflota landsmanna. Þetta kom fram á blaðamannafundi þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar,  þeirra Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar sem kynnt voru næstu skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi.

Verkefnin byggja á tillögum starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipuðu í byrjun árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um loftslagsmál og orkuskipti.

Tilkynnt var um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019-2020 en samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að verja 1,5 milljarði króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.

Þriðjungur þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda kemur frá vegasamgöngum. Stærsta einstaka aðgerðin sem mögulegt er að ráðast í til að mæta skuldbindingum Íslands er því að draga úr þessari losun – með breyttum ferðavenjum og orkuskiptum í vegasamgöngum.

Rafvæðing fólksbílaflotans mun skila mestu í orkuskiptunum en gert er ráð fyrir að hún geti skilað allt að 250.000 tonna árlegum samdrætti í losun.