Max Mosley fyrrverandi forseti FIA látinn

Max Mosley, fyrrverandi forseti Alþjóða akst­ursíþrótta­sam­bands­ins,FIA, er látinn 81 árs að aldri. Hans er minnst fyrir mikið og óeigingjart starf innan hreyfingarinnar í mörgum mikilvægum málum. 

Jean Todt, núverandi forseti FIA, minnist hans af hlýhug og segir hreyfinguna í mikilli þakkarskuld við allt það starf sem Mosley vann af hendi.  Hann hafi staðið í öndvegi að framgangi Formúlu 1 keppninnar og akstursíþrótta almennt.

,,Sem forseti FIA í 16 ár lagði hann mikið af mörkum til að efla öryggi í akstursíþróttum og á vegum almennt . Allt samfélag FIA heiðrar minningu hans og  hugur okkar er hjá fjölskyldu hans" sagði Jean Todt.

Max Mosley fæddist í London árið 1940 og gekk í skóla í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Hann hélt áfram til náms við Oxford háskóla, þar sem hann las eðlisfræði. Síðar lauk hann námi í lögfræði.

Áður en hann tók við embætti for­seta FIA var hann formaður akst­ursíþrótta­nefnd­ar sam­bands­ins. Hann hóf af­skipti af akst­ursíþrótt­um á sjö­unda ára­tugn­um, fyrst sem ökumaður í Formúlu-2 fyr­ir Bra­bham og Lot­us, en hann ákvað að leggja stýrið á hill­una árið 1969 og helga sig öðrum hliðum akst­ursíþrótta.

Þegar Max Mosley tók við for­ystu­hlut­verki FIA lýsti hann því yfir, að hann ætlaði að gera stór­átak í ör­ygg­is­mál­um, bæði í akst­ursíþrótt­um og í al­mennri um­ferð. Marg­ir kann­ast við EuroNCAP, sem stjörnu­merk­ir bíla með til­liti til ­um­ferðarör­ygg­is, en Mosley var formaður þar um hríð.

Mosley gegndi formennsku í Global NCAP við frábæran orðstír um árabil. Árið 2002 lagði Mosley til að stofnað yrði FIA Foundation og FIA Academy. Mosley starfaði sem trúnaðarmaður stofnunarinnar og einbeitti sér að því að efla umferðaröryggi, umhverfisvernd og öryggi akstursíþrótta um allan heim.

Mosley kom til Íslands í nóvember 2004 og flutti erindi um um­ferðarör­ygg­is­mál á Umferðarþingi.