Maybach er ekki til sölu

Móðurfélag Mercedes Benz, Daimler AG afneitaði í morgun orðrómi um að ofurlúxusmerkið Maybach væri til sölu. Kínverskir fjölmiðlar, m.a. dagblaðið Guangzhou Daily hafa greint frá því að kínverskt bílaframleiðslufyrirtæki sé að hugsa um að kaupa Maybach.

Í frétt Guangzhou Daily í gær, mánudag segir að það sé bíla- og rafgeymafyrirtækið BYD sem gæti hugsað sér að kaupa vörumerkið Maybach sem og framleiðsluna á þessum einum mesta og dýrasta lúxusbíl veraldar af Daimler. BYD myndi örugglega slá til og skella sér á Maybachinn um leið og hann verði falboðinn. Talsmaður Daimlers harðneitaði þessu og sagði við fréttamann Reuters í morgun að Maybach væri mikilvægur hluti af starfsemi og framleiðslu Daimlers og væri barasta alls ekki til sölu. „Það verður heldur engin slík ákvörðun tekin,“ sagði talsmaðurinn.

Talsmaður BYD harðneitar einnig þessum orðrómi í samtali við Reuters og spurður um hvort eitthvað hafi verið rætt við Daimler-menn um kaup sagði hann einfaldlega „nei.“

Sjálfsagt eru áhöld um mikilvægi Maybach í starfsemi Daimlers því að ekki er hægt að segja að bíllinn seljist í stórum stíl. Daimler seldi einungis 200 stykki af Maybach á síðasta ári sem er bara lítið brot af sölu síðasta árs á ofurlúxusmerki BMW, Rolls Royce og á Bentley sem er ofurlúxusmerki Volkswagen.

BYD framleiðir bíla en er jafnframt einn stærsti framleiðandi líþíum rafgeyma í heiminum og framleiðir allar farsímarafhlöður fyrir Nokia og Motorola. Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett er eigandi tíu prósenta af hlutafé BYD og eftir að hann kom að fyrirtækinu er það í vaxandi mæli að snúa sér að framleiðslu rafgeyma fyrir rafbíla og framleiðslu rafbíla. BYD varð á síðasta ári fyrsti bílaframleiðandinn til að hefja fjöldaframleiðslu á hreinum rafbíl, þ.e. bíl sem eingöngu er knúinn rafmagni. Sá bíll er eingöngu á heimamarkaðinum, Kína enn sem komið er.

BYD er ennfremur í samstarfi við Daimler um hönnun og þróun nýrra rafbíla sem verða fyrst markaðssettir í Kína á undan öðrum heimshlutum en eru væntanlegir á almennan markað í Bandaríkjunum og Evrópu á næstu árum.