Mazda 2 heimsbíll ársins

http://www.fib.is/myndir/Mazda2.jpg
Mazda 2.

Heimsbíll ársins 2008 hefur verið valinn af nefnd 47 bílablaðamanna frá 24 löndum. Valið fór fram um helgina á bílasýningunni í New York. Heimsbíllinn í ár er Mazda 2, sem danskir bílablaðamenn útnefndu bíl ársins 2008 seint á sl. ári. Besta nýja bílhönnunin féll í skaut Audi  fyrir R8 bílinn. R8 hlaut einnig titilinn sportbíll ársins. Umhverfisbíll ársins var valinn BMW 118d.

Upphaflega voru alls 39 bílategundir og –gerðir tilnefndar til titilsins Heimsbíll ársins. Eftir að eins konar útsláttarkeppni hafði farið fram stóðu tíu eftir og voru fjórir titlar til skiptanna handa þeim; aðaltitillinn Heimsbíll ársins, Heims-bílhönnun ársins, Heims-sportbíll ársins og Umhverfis-heimsbíll ársins. (World car, World Car Design, World Perfomance Car og World Green Car.)

Um megintitilinn Heimsbíll ársins stóð valið að síðustu milli Mercedes C, Ford Mondeo og Mazda 2. Þar sem Lexus LS 460 hlaut titilinn í fyrra reiknuðu fáir með því að japanskur bíll ynni tvö ár í röð og Ford Mondeo þótti því líklegastur. En það fór semsé á annan veg og japanskur bíll hlaut titilinn annað árið í röð. Í forsendum nefndarinnar segir m.a. að Mazda 2 sé nýr bíll frá grunni og eigi fátt skylt með eldri gerðinni annað en nafnið. Hann sé einstaklega vel hannaður og staðalútgáfan sé sérlega vel búin.

Heims-umhverfisbíll ársins - World Green Car 2008 var valinn BMW 118d dísilbíll. Í upphaflega bílahópnum var úr alls tíu umhverfismildum bílum að velja. Þrír stóðu svo eftir í úrslitum og hreppti BMW bíllinn sigurinn. Í forsendum valsins segir að BMW hafi tekist að draga mjög úr eyðslu án þess gefa eftir í neinu sem einkennir BMW bíla.  
Audi R8 krækti í tvöfaldan sigur, bæði sem Heims-bílhönnun ársins og Heims-sportbíll ársins. Dómnefndin lofaði bílinn mjög fyrir hönnunina sem hún sagði bæði nýtískulega og kröftuga.

Af þeim 47 blaðamönnum sem skipa dómnefndina er aðeins einn Norðurlandabúi; Robert Collin frá Aftonbladet í Svíþjóð. Aðeins ein kona er í hópnum. Hún heitir Samantha Stevens og er frá Ástralíu.

Þetta er í fimmta sinn sem heimsbíll ársins er valinn. Áður hafa þennan titil hlotið Lexus LS 460 (2006), BMW 3-línan (2005) og Audi A6 (2004). Þeir bílar sem til greina koma við valið verða að hafa verið fáanlegir fyrir það í minnst fimm löndum í minnst tveimur heimsálfum. Þessi krafa útilokar velflesta bandaríska bíl sem einungis eru á markaði í Bandaríkjunum einum.