Mazda samsetning í Viet Nam

Mazda í Japan hefur samið við dreifingaraðila sinn í Viet Nam; Vina Mazda, um samsetningu á smábílnum Mazda 2. Samsetningarverksmiðja hefur verið sett upp í Qunag Nam héraði og á hún að byggja árlega tvö þúsund bíla fyrir heimamarkaðinn í Viet Nam.

Afkastagetan er þó meiri, eða 10 þúsund bílar árlega. Framleiðslan hefst í október nk. Um leið hættir innflutningur á Mazda 2 frá Japan. Meginástæða þessa er sú að gengi japanska Yensins er hátt um þessar mundir gagnvart gjaldmiðli Viet Nam og innfluttir bílar því orðnir allt of dýrir. Með því að byggja Mazda 2 í Viet Nam sjálfu verður hægt að lækka verðið frá því sem nú er.

Mazda er tiltölulega nýr „landnemi“ í Viet Nam. Það var í marsmánuði sl. sem  Mazda í Japan samdi við vietnamska fyrirtækið Vina Mazda um að það gerðist einkaumboðsaðili og flytti inn frá Japan og seldi Mazda 2, Mazda 3, Mazda 6 og CX-9 og Mazda BT-50 pallbílinn frá Thaílandi.

Dagblaðið Saigon Times í Viet Nam sagði nýlega í frétt að nýja verksmiðjan væri þannig gerð að seinna meir yrði mögulegt að skrúfa saman fleiri gerðir en bara Mazda 2 og einnig væri stefnt á það að stækka verksmiðjuna og auka afköstin síðar meir ef eftirspurnin vex í Viet Nam og næstu grannlöndum.