Meiri skemmdir á Suðurstrandavegi vegna jarðhræringanna

Frekari skemmdir urðu á Suðurstrandarvegi í gær nálægt Festarfjalli. Sprungur hafa myndast við axlir og í fyllingu þannig að vegrið hefur ekki allsstaðar fullan stuðning. Svæðið er merkt, akreinar eru þrengdar, þungatakmarkanir hafa verið settar á og hámarkshraði lækkaður. Unnið er að lausnum varðandi lagfæringar á þessum skemmdum. 

Vegagerðin hefur eftir frumskoðun og uppsetningu gátskjalda í gær skoðað ástand vegarins í morgun. Í ljós kom að það er töluvert sig á fyllingu utan á öxlum vegarins, vegriðið hefur ekki lengur fullan stuðning á nokkrum köflum. Vegurinn hefur einnig sprungið þvert á nokkrum stöðum.  Það er ekki að sjá að það sé komið í sig í veginn sjálfan en svæðið sem er mest sprungið er þarf að skoðast betur og þar verður þrengt að umferðinni svo ekki reyni á þá kafla. 

Einnig hefur veirð tekin ákvörðun um að setja þungatakmarkanir á veginn og miða við 7 tonna öxulþunga.  Vegurinn verður þrengdur þannig að umferðin færist frá ytri brún, færslan verður stærri en sett var upp í gær.  Hámarkshraði verður áfram tekin niður í 50 km/klst. Vegfarendur eru beðnir um að fara varlega á veginum og svæðinu öllu. Ljóst er að breytignar geta átt sér stað enda skjálftavirknin áframhaldandi.