Meirihluti landsmanna andvígur hugmyndum um veggjöld

Meirihluti landsmanna, eða 56,1% aðspurðra, er frekar eða mjög andvígur hugmyndum um veggjöld verði innheimt til að fjármagna uppbyggingu helstu stofnleiða samgöngukerfisins samkvæmt könnun sem Zenter gerði að beiðni Fréttablaðsins. Einn af hverjum þremur er frekar eða mjög hlynntur slíkum hugmyndum.

Könnun Zenter var netkönnun sem gerð var dagana 18. til 22. janúar. Úrtakið var 3.100 einstaklingar og var svarhlutfallið 41,5 prósent. Gögn voru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið var tillit til kyns, aldurs og búsetu.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 32,6 prósent eru mjög andvíg hugmyndum um veggjöld en aðeins 9,8 prósent eru mjög fylgjandi veggjöldum. Mestu er stuðningurinn meðal íbúa á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi, eða á bilinu 39 til 41 prósent. Flestir er mótfallnir veggjöldum á Suðurlandi og á Reykjanesi eða 74 og 70 prósent hvort um sig. Rétt rúmlega helmingur íbúa höfuðborgarsvæðisins er mótfallinn hugmyndum um veggjöld, eða 54 prósent, en 34 prósent höfuðborgarbúa sögðust hlynntir slíkum hugmyndum.

Niðurstöðurnar leiða jafnframt í ljós að fólk sem lokið hefur framhaldsnámi í háskóla er marktækt hlynntari veggjöldum en aðrir menntunarhópar, eða 45 prósent.

Umfjöllun um könnun Fréttablaðsins má nálgast hér.