Mengunargjöld á eldsneyti

The image “http://www.fib.is/myndir/Vetnismini.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Mengunarlausir eru bílar án aðflutningsgjalda.
Umhverfisráðstefnan sem stendur yfir í dag og á morgun á Hótel Nordica í Reykjavík er haldin undir kjörorðunum Velferð til framtíðar. Í samnefndri skýrslu sem liggur fyrir þinginu er m.a. fjallað um hreinna eldsneyti og umhverfisvænni farartæki. Lagt er til að gjöld af eldsneyti á farartæki taki mið af þeirri mengun sem hlýst af bruna þess.
Í skýrslunni er lagt til að í þessum anda verði gjöld á hreinni díselolíu minni en á meira mengandi eldsneyti og gjöld á metani og vetni enn minni. Gjöld og skattlagning á einkabílum og öðrum farartækjum verði einnig með þeim hætti að hagkvæmara verði að reka sparneytna bíla en orkufrekari og að bílar sem noti „hreint“ eldsneyti beri minnstu gjöldin.
Í dag eru ökutæki, sem valda hverfandi mengun og eru knúin óhefðbundnum orkugjafa, svo sem raf- eða vetnis
hreyfli, undanþegin greiðslu vörugjalds samkvæmt lögum sem samþykkt voru á alþingi sl. vor og gilda til ársloka 2008. Gjaldfrelsið nær til allra ökutækja sem flutt eru inn eða framleidd hér á landi og eru eingöngu knúin mengunarlausum orkugjafa, s.s. rafmagni eða vetni.
Hægt er að setja búnað í flestalla bensínbíla þannig að þeir brenni gasi, t.d. metangasi. Nokkrir slíkir bílar eru þegar í umferð hér og geta þeir flestir einnig ekið á bensíni þegar gaskúturinn tæmist. Slíkir bílar bera 240.000 kr. lægra vörugjald heldur en hreinir bensín- eða dísilbílar. Samkvæmt lögum frá sl. vori var afslátturinn aukinn en hann hafði verið helmingi lægri samkvæmt eldri lögum. Þessi 240 þúsund króna afsláttur gildir til ársins 2006.
Auk þessa er í gildi heimild til að fella niður eða endurgreiða að fullu virðisaukaskatt af vetnisbifreiðum sem fluttar eru inn í rannsóknaskyni, svo og sérhæfðum varahlutum í þær. Þá er heimilt að fella niður toll og/eða vörugjald af varahlutum í slíka bíla. Heimild þessi nær eingöngu til vetnisbifreiða sem valda hverfandi mengun. Hún gildir út árið 2008.