Mercedes á 480 milljónir

http://www.fib.is/myndir/Mercedes540.jpg
Mercedes-Benz 540K Special Roadster árgerð 1937.

Bernie Ecclestone seldi um 50 bíla úr bílasafni sínu á uppboði þann 31. október sl. Meðal gripanna á uppboðinu var sjaldgæfur Mercedes-Benz 540K Special Roadster frá 1937. Hann var sleginn nýjum eiganda á rúmar 480 milljónir íslenskra króna.

Einungis 26 eintök voru byggð af Special Roadster á sínum tíma. Það eintak sem nú hefur verið selt hefur verið í eigu allnokkurra í gegnum tíðina. Meðal þeirra var bílahönnuðurinn Brooks Stevens hjá Studebaker sem átti bílinn um áratugi og hafði til sýnis í einkasafni sínu.

Bíllinn var upphaflega byggður fyrir breskan kaupanda og var því með hægri handar stýri en Stevens breytti því og færði stýrið yfir í vinstri hliðina..

Bernie Eccelstone eignaðist Benzann árið 1995. Honum tókst einnig að grafa upp upprunalegu bresku númeraplöturnar á bílinn. Númerið er DYX 911.