Mercedes Benz og blaðamaður AutoBild uppvísir að blekkingum

The image “http://www.fib.is/myndir/Michael-Specht.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Michael Spect undir stýri. Tæknimaður Benz leggur honum línurnar.
Stjörnublaðamaður þýska bílablaðsins AutoBild, Michael Specht og tæknimenn Mercedes Benz í Stuttgard hafa orðið uppvísir að því að beita sameiginlega blekkingum við kynningu á radarstýringu á hemlum lúxusbílsins Mercedes Benz S. Kerfið vinnur þannig að ef t.d. árekstur hefur orðið í þoku og/eða myrkri á hraðbraut þá sér radarinn í gegn um þokuna, gefur frá sér viðvörunarpíp en hemlar sjálfvirkt bílnum ef ökumaðurinn, sem ekki nær að sjá hindrunina framundan, hunsar viðvörunarpípið. Kerfið getur þannig forðað slæmum slysum sem algeng eru á þýskum hraðbrautum þegar hver bíllinn eftir annan keyrir á fullu inn í slysakös.
Til að kynna búnaðinn hafði kynningardeild Mercedes samband við AutoBild og úr varð að Michael Specht tók að sér að aka S-Benza sem hemlaði sjálfvirkt þegar hann nálgaðist hindrun sem ósýnileg var ökumanni. Myndatökuteymi frá hinum vikulega bílaþætti í þýsku sjónvarpi, Stern-Magazine var kallað til, til að mynda atburðinn.
Sjálfur aksturinn fór svo fram á stórri innanhúss-árekstrarprófunarbraut Mercedes Benz í Stuttgard. Við enda brautarinna var stillt upp bílflökum en reykvélar sáu um að hylja flökin. Allt þetta var svo sem gott og blessað en ekki vissu aðrir en tæknimenn Benz sjálfir og Michael Specht að kerfið er þeim takmörkum háð að radarinn virkar ekki þarna inni á brautinni þótt svo hann virki ágætlega úti á vegum. Ástæðan er sú að veggirnir eru of nærri og trufla radarinn. Því var búnaðurinn tekinn úr sambandi en merki sett í gólfið til hliðar við bílinn þar sem blaðamaðurinn skyldi stíga á bremsupedalann. Gallinn var bara sá að Michael Specht klikkaði á merkinu, hemlaði allt of seint og S-Benzinn dúndraði á fullri ferð inn í bílakösina og allt fór í klessu.
Specht brá greinilega mikið við þetta því hann gleymdi algerlega að sjónvarpsmenn
Stern höfðu hengt á hann hljóðnema. Eftir áreksturinn heyrist hann bölva og ragna og spyrja sig hvað hafi eiginlega farið úrskeiðis. Annar bíll var sóttur og nú hafði Specht greinilega kynnt sér hvar merkið var þar sem hann ætti að bremsa og nú virtist allt virka rétt.
Fyrstu fregnir af málinu voru þær að búnaðurinn hefði ekki virkað í fyrra sinnið en eftir að hljóðmaður Stern myndatökuteymisins fór yfir hljóðrásina kom hið sanna í ljós. – þetta var allt blekkingaleikur Benz og Specht. Grunsemdir höfðu vaknað hjá sjónvarpsmönnunum þegar myndatökumaðurinn vildi fá að sitja í bílnum hjá Specht í seinni umferðinni. Tæknimenn Benz sögðu já við því en Specht hélt nú ekki og tók tæknimennina á eintal út í horn – en gleymdi enn hljóðnemanum. Á hljóðupptökunni heyrist hann segja við Benzmenn; - eruð þið vitlausir að leyfa honum að sitja í bílnum og sjá þá að kerfið er ekkert í sambandi-. Þú getur séð og heyrt
upptökur sjónvarpsmannanna á Stern með því að smella hér. Rétt er að geta þess að endingu að eftir að upp komst um þátttöku Spehts í þessum blekkingaleik var hann rekinn úr starfi frá AutoBild sl. mánudag.