Mercedes Benz tvinnbílar á næsta ári

http://www.fib.is/myndir/Mercedes_visionbluetec.jpg
Mercedes-Benz Vision GLK Bluetec Hybrid.

Mikil eftirvænting er nú meðal bílaáhugafólks eftir því að skoða sýningarsvæði Mercedes Benz á bilasýningunni í Genf sem opnuð verður á fimmtudaginn. Ástæðan er sú að Mercedes virðist ætla að verða fyrsti bílaframleiðandinn til að koma fram með rafgeyma (líþíum-jónarafhlöður) fyrir rafbíla og tvinnbíla sem gera þá miklu samkeppninshæfari við hefðbundna bensín- og dísilbíla en hingað til.

Daimler, móðurfyrirtæki Mercedes hefur tilkynnt að það eigi nú mörg ný einkaleyfi á líþíum-jóna-rafgeymatækni fyrir bíla. Tæknin verði í nýjum Mercedes Benz S400 BlueHYBRID tvinnbíl sem kemur á markað á næsta ári. Bíllinn verður einmitt sýndur í Genf ásamt fleiri Benz bílum með tvinntækni og hinum nýju rafhlöðum.

Með þessu er Daimler að því er virðist búinn að skáka öðrum keppinautum sem boðað hafa bíla með léttum en orkumiklum rafhlöðum sem þola mikið hleðslu- og afhleðsluálag. Stærstir þeirra eru GM og Toyota sem boðað hafa slíkar rafhlöður í bílum 2010. GM boðaði þær í rafbílnum Volt sem fyrst var sýndur fyrir um tveimur árum sem frumgerð við mikla athygli.
Það er hátækni- og hjólbarðafyrirtækið þýska, Continental AG sem framleiðir líþíum-jónarafhlöðurnar fyrir Daimler. Continental er jafnframt annar tveggja aðila sem framleiða mun slíkar rafhlöður í Chevrolet Volt og Opel Flex fyrir GM. Í fréttatilkynningu frá Continental segir að framleiðsla á S400 Bluetec HYBRID rafhlöðunum hefjist á fullu síðast á þessu ári.