Mercedes í rafmagnsformúluna 2018-19

Daimler (Mercedes Benz) sem átt hefur sigursælt Formúlu eitt lið undanfarin ár hefur sótt um það hjá FIA, alþjóða akstursíþróttasambandinu, að taka þátt í fimmta keppnistímabili rafmagnsformúlunmar (Formula E) 2018-19. Á keppnistímabilinu 2016-17 sem hefst í Hong Kong um næstu helgi taka 10 lið þátt en gert er ráð fyrir því að þau verði orðin tólf 2018-19.

En hversvegna hefur Mercedes ekki verið með og hversvegna 2018-19? Skýringin á því er sú að 2018-19 er gert ráð fyrir því að komnar verði til sögunnar rafhlöður sem knúð geta einn og sama keppnisbílinn í gegn um heilan keppnisviðburð. Hingað til hefur það ekki verið hægt og þess vegna hefur hver keppandi a.m.k. tvo keppnisbíla sem hann ekur til skiptis meðan hlaðið er á geyma hins.

Meðal þátttakenda í E-formúlunni nú eru lið frá Renault, PSA (Citroen DS), Audi, BMW, Jaguar og Mahindra. ,,Við hofum fylgst náið og af miklum áhuga með rafmagnsformúlunni,” segir Toto Wolff yfirmaður mótorsportsdeildar Mercedes í fréttatilkynningu og Dieter Zetsche forstjóri Daimler segist hafa skoðað ýmsa framtíðarmöguleika mótorsportsins og það sé mjög gleðilegt hversu vel hafi verið tekið í það af hálfu FIA að taka Mercedes inn í E-formúluna. ,,Rafvæðingin er stór þáttur í bílum framtíðarinnar og kappakstur hefur alltaf verið vettvangur tilrauna og nýjunga í bílaiðnaðinum og hlutur rafmagnsformúlunnar í því á eftir að hraðvaxa,” segir Dieter Zetsche.