Mercedes X er Nissan Navara

Tæknisamvinna Renault-Nissan og Daimler (Mercedes Benz) þéttist stöðugt. Fyrir fáum árum birtist hún í litla sendibílnum Mercedes Citan sem í rauninni er Renault Kangoo. Á næsta ári mun svo koma Mercedes X, en það er pallbíll sem í raun verður Nissan Navara undir Benz-stjörnu.

Fjórhjóladrifinn pallbíll með fimm manna húsi og fjórhjóladrifi er nýjung hjá Benz. Ef marka má myndir af frumgerðunum þá verður X-klassinn mjög í anda vandaðra Benz bíla, ekki síst í innréttingum. X-línan verður því í senn vinnuhestur og lúxusjeppi með öll þægindi og öryggi við hæfi fjölskyldufólks sem hefur gaman að ferðalögum og útivist.

X-Benzinn verður byggður í verksmiðju Nissan skammt frá Barcelona á Spáni þar sem Nissan Navara er byggð, bæði undir merki  Nissan en líka sem Renault Alaskan. X-Benzarnir frá Barcelona fara þaðan á markaði í Evrópu, Ástralíu og S. Afríku. Hann verður ekki í boði á Bandaríkjamarkaði að sinni í það minnsta því að þar þykja bílar af svokallaðri eins tonns stærð pallbíla of litlir.