Mest ekið á föstudögum á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í febrúar jókst um ríflega sjö prósent sem er mikil aukning í febrúar og mun meiri aukning en að jafnaði í þessum mánuði. Hluti skýringar á mikilli aukningu gæti verið að fyrir ári var mjög lítil aukning í umferðinni í febrúar. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 4,3 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin hefur aldrei verið meiri yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, en hún jókst um 7,1% milli febrúarmánaða 2018 og 2019.  Þetta er mun meiri aukning en varð í sama mánuði fyrir ári síðan og leita þarf aftur til ársins 2016 til að finna sambærilega aukningu í febrúarmánuði.

Umferðin jókst langmest yfir mælisnið á Reykjanesbraut (7,2%) og á Vesturlandsvegi (9,8%). Þessi mikla aukning gæti að einhverju leyti skýrst af lítilli aukningu í febrúar á síðasta ári. Nú hefur umferðin aukist að jafnaði um 2,8% í febrúar frá árinu 2005. Þessi aukning nú er því 2,5 sinnum meiri en í meðalári.

Nú hefur umferðin aukist um 4,3%, frá áramótum og er það einu prósentustigi meiri aukning en á sama tíma á síðasta ári. Mest var ekið á föstudögum í febrúar nýliðnum og minnst á sunnudögum.

Umferðin jókst hins vegar hlutfallslega mest á sunnudögum, eða um tæp 18%, en minnst á þriðjudögum, eða um rúmlega 2%, sem jafnframt voru umferðarminnstir virkra daga í nýliðnum mánuði.