Mest seldi bíll heims 2012?

Mest seldu bílarnir í heiminum árið 2012 voru Ford Focus og Toyota Corolla. Það virðist vera á hreinu. Hins vegar er ekki alveg á hreinu hvor er söluhærri, en litlu munar á þeim.

Ford vitnar í tölur frá tölfræðifyrirtækinu R.L. Polk & Co. og segir að Fókusinn hafi selst í 1,02 milljónum eintaka árið 2012. Toyota mótmælir og segist hafa vinninginn með Corolla sem selst hafi í 1,16 milljónum eintaka. Toyota vitnar þar til talna frá LMC Automotive, sem nýtir tölur frá Toyota. Polk er óháð og sjálfstæð stofnun sem aflar sjálf sinna talna.  Og niðurstöðunum ber ekki saman. 147.600 bíla ber í milli.

http://www.fib.is/myndir/Ford-Focus-13.jpg
Ford Focus.
http://www.fib.is/myndir/Toyota-corolla-2013.jpg
Toyota Corolla.
http://www.fib.is/myndir/Wuling-Zhiguang.jpg
Wuling Zhiguang.

Þegar þessir listar eru bornir saman að fleira ber í milli en bara tölur um Focus og Corolla. Á Polk listanum er t.d. ekki að finna mikinn sölubíl sem er VW Jetta. Tölum um VW Golf ber hins vegar vel saman.

Á Polk listann er nú kominn inn í fjórða sætið kínverskur fjölskyldubíll sem heitir Wuling Zhiguang, en hann seldist í 768.870 eintökum árið 2012. Þá læddist Honda CR-V inn í tíunda sætið hjá Polk 2011 með 507.400 seld eintök í heiminum. Polk hefur einnig Ford F-pallbílalínuna inni á sínum lista þrátt fyrir að margir telji hann ekki fólksbíl heldur vinnubíl. Ford á þrjár bílgerðir á listanum meðan risarnir GM og Volkswagen eiga hvor um sig einn – Chevrolet Cruze og VW Golf.

En hver skyldi skýringin vera á því að tölum um efstu bílana ber ekki saman? Bloomberg fréttastofan telur hana vera þá að Toyota hafi bætt aðeins í með því að telja með Corolla bílunum gerðirnar Corolla Axio sem er stallbakur (svipað og VW Jetta) og Corolla Altis sem er lítilsháttar stærri en Corolla. Báðir séu hins vegar annarskonar bílar svipað og Jetta er annarskonar bíll en Golf.

En svona lítur annars Polk listinn út yfir söluhæstu bílgerðir í heiminum árið 2012 ásamt sölutölunum. Tölurnar í svigunum eru sölutölur ársins 2011.

1) Ford Focus 1,020,410 (879,914)

2) Toyota Corolla 872,774 (819,376)

3) Ford F-Series 785,630 (713,657)

4) Wuling Zhiguang 768,870 (729,328)

5) Toyota Camry 729,793 (558,800)

6) Ford Fiesta 723,130 (764,415)

7) Volkswagen Golf 699,148 (716,358)

8) Chevrolet Cruze 661,325 (606,825)

9) Honda Civic 651,159 (606,825)

10) Honda CR-V 624,982 (507,353)