Mesta eyðilegging bílasögunnar

The image “http://www.fib.is/myndir/HummerH2.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
GM hefur lánað bandaríska Rauða krossinum hátt á annað hundrað svona Hummer H2 bla til afnota í björgunarstörfum í kjölfar fellibyljanna.
Fellibyljirnir Katrina og Rita eru þær náttúruhamfarir sem eyðilagt hafa flesta bíla í hundrað ára sögu bílsins. Talið er að hátt í 200 þúsund bílar hafi eyðilagst.
Sé talin með sú eyðilegging sem þessi fárviðri ullu á bílasölufyrirtækjum, bensínstöðvum, olíuborpöllum og olíuhreinsunarstöðvum og valdið stórhækkun á bensínverði, þá má hiklaust fullyrða að óveðrin hafi skaðað þann samfélagsþátt sem bíllinn er í heild sinni meir en áður eru dæmi um. Árásirnar á Tvíburaturnana í New York 11. september 2001 eru hreinn barnaleikur á móti þessum ósköpum því að þá eyðilögðust „aðeins“ ríflega 3.000 bílar.
Það verður ekki hlaupið að því að koma innviðum á hamfarasvæðunnum í samt lag aftur. Það verk mun taka minnst ár, trúlega þó meir. En vera kann að bílaiðnaðurinn í Bandaríkjunum verði ekki samur eftir því að hamfarirnar hafa fært milljónum bifreiðaeigenda heim sanninn um það hve samfélagið er óþægilega mikið háð olíu og olíuvinnslu. Fólk hefur áttað sig á hversu mikið verð á bensíni hefur hækkað í kjölfar hamfaranna, það gæti haldið áfram að hækka um ófyrirsjáanlega framtíð og nýjar hamfarir geta brostið á hvenær sem er og framkallað nýa hækkanasprengingu.
Áhugi almennings fyrir stórum eyðslufrekum bílum fer því hraðminnkandi í Bandaríkjunum og því hafa bandarísku bílaframleiðslufyrirtækin mjög hert á þróunarvinnu við tvinnbíla, vetnisbíla og dísilknúna fólksbíla undir merkjum minni eldsneytiseyðslu – loksins segir kannski einhver.