Methagnaður hjá Fiat

The image “http://www.fib.is/myndir/Fiat500-nyr.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hinn nýi Fiat 500.

Reksturinn hjá Fiat rokgengur þessa stundina. Á fyrri helmingi þessa árs jókst sala nýrra Fiatbíla um 12%. Rekstrarhagnaður er næstum helmingi meiri en á sama tíma í fyrra, eða 627 milljónir evra. Þetta eru mikil umskipti því að tap var á rekstrinum um árabil og árið 2004 var svo erfitt Fiat að við gjaldþroti lá.

Fiat er stærsta bílamerkið innan Fiat samsteypunnar en auk Fiat er um að ræða Alfa Romeo, Lancia, Maserati og Ferrari. Veltan í fólksbílaframleiðslunni jókst um 11,7% og fór í 14,2 milljarða evra. Alls seldust  rúmlega 1,1 milljón bíla sem er 12% aukning miðað við sama tíma í fyrra. Þetta er ekki síst athyglisvert þar sem sölusamdráttur varð á mörgum stærstu bílamarkaðssvæðum álfunnar.

Mestur bati í einstökum bílamerkjum innan Fiat hefur orðið í Maserati en á þessu eðalmerki hefur verið tap undanfarin 17 ár en nú hefur reksturinn náðst upp á núllið. Tapið á fyrra helmingi var hins vegar hvorki meira né minna en 26 milljónir evra. Sölustjóri Maserati, Raffaele Fusilli segir við Automotive News að ljóst sé orðið að hagnaður verði af Maserati þegar árið verður gert upp. Skýringin á þessum mikla viðsnúningi séu nýju bílarnir Maserati GranTurismo Coupé og Quattroporte Automatica sem gangi mjög vel.

En hið góða gengi Fiat er þó einna mest að þakka nýju gerðunum af Fiat Punto og Bravo. Þá reikna menn með að nýi smábíllinn Fiat 500 muni enn bæta haginn, en sala hófst á honum með pompi og pragt þann 4. júlí sl. Samkvæmt upplýsingum frá Sögu, umboðsaðila Fiat á Íslandi er nýja bílsins að vænta til Íslands á fyrri hluta nýs árs.