Methagnaður hjá Mazda

Þrátt fyrir stórbruna í lökkunardeild Ujina-1 bílaverksmiðju Mazda í Japan á síðasta ári tókst að koma verksmiðjunni aftur á full afköst á undraskömmum tíma. Það var kannski eins gott því að eftirspurn eftir Mazda bílum hefur aldrei verið meiri en á síðasta bókhaldsári (sem lauk í mars sl.) Hagnaðurinn varð meiri en nokkurntíman áður eða hátt í 30 milljarðar ísl. kr. og jókst um 35% frá síðasta reikningsári.
Stjórnendur Mazda búast við áframhaldandi vexti á þessu ári og reikna með að veltuaukning verði 5% meiri, framleiðsluaukning verði 7% meiri og hreinn hagnaður verði 20% meiri en á nýliðnu reikningsári sem þó var metár hjá Mazda í öllu tilliti. 7% framleiðsluaukning hjá Mazda þýðir að smíðaðir verða 1.178 þúsund Mözdur á þessu ári.