Metsala á Jeep 2012

Sala á bílum af tegundinni Jeep jókst á heimsvísu um heil 19% á árinu 2012 miðað við árið á undan. Samtals seldust 701.626 Jeep bílar árið 2012 og hafa aldrei áður selst fleiri bílar af tegundinni. Fyrra sölumet Jeep 675.494 bílar var sett árið 1999.

Jeep er í eigu Chrysler og er því hluti Chrysler-Fiat samsteypunnar og hann ekki veigalítill. Forstjóri Jeep-hlutans heitir Mike Manley. Hann segist við fjölmiðla reikna með að eftirspurnin eftir Jeep haldi áfram að aukast á þessu ári, ekki síst vegna þess að brátt verði kynntur algerlega nýr meðalstór jepplingur. Þá verði 2014 árgerðin af hinni nýju kynslóð Jeep Grand Cherokee fáanleg með dísilvél. Frá því að hún kom fyrst fram haustið 2012 hefur bíllinn einungis fengist með bensínvélum.

Nýja kynslóðin af Grand Cherokee hefur slegið vel í gegn og er sú gerð Jeep sem best seldist á síðasta ári, eða í 223.196 eintökum. Önnur söluhæsta gerðin var Wrangler sem seldist í 194.142 eintökum og sú þriðja var Compass sem seldist í 103.321 eintökum.