Metsala á nýjum bílum í Kína og USA 2015

Aldrei fyrr hafa selst jafn margir nýir bílar í tveimur mestu bílaríkjum heims; Kína og Bandaríkjunum, eins og árið 2015.  Samanlagt voru 38,6 milljón bílar nýskráðir. Af þeim keyptu Bandaríkjamenn 17,5 milljón bíla og Kínverjar 21 milljón bíla. Miðað við árið 2014 jókst sala nýrra bíla um 5,7 prósent í Bandaríkjunum frá 2014 og um 7,3 prósent í Kína.  

Í Evrópu jókst líka sala nýrra bíla umtalsvert árið 2015 eða um 9,2 prósent milli ára. Alls keyptu Evrópubúar 14,2 milljón nýja bíla 2015 sem sannarlega er ekki mikið sé miðað við hið nýja og volduga bílaríki sem Kína er – ríki þar sem venjulegt fólk átti ekki eigin bíla fyrir minna en tveimur áratugum. Vöxturinn í almennri bílaeign hefur verið gríðarlegur undanfarin ár en mjög hægðist á honum fram eftir árinu 2015 eða þar til Kínastjórn breytti bílasköttum tímabundið á síðasta fjórðungi ársins og lækkaði þá á bíla með minni vélar en 1,6 rúmsm að rúmtaki. Með þessu stórjókst salan á ný, ekki síst í minni jepplingum. Nýskráningum á þeim fjölgaði um 52 prósent miðað við árið á undan.

GM er söluhæsti bílaframleiðandinn í Kína árið 2015 og jók hlutdeild sína um 5 prósent milli ára og ýtti Volkswagen úr fyrsta sætinu. Hlutdeild Volkswagen dróst reyndar saman í Kína um 3 prósent en VW seldi þó 3,55 milljón bíla. Samdrátturinn er alls ótengdur dísilpústhneykslismáli VW. Kínverskir bíla- og markaðsfræðimenn segja að hann sé vegna þess að lögð var áhersla á að framleiða rangar bílgerðir. Jepplingar falli kínverskum kaupendum best í geð en yfirstjórnendur Volkswagen í Þýskalandi hefðu ekki áttað sig á því. Þessvegna hefðu bílakaupendur snúið sér til annarra framleiðenda eins og GM sem gat boðið upp á breitt úrval jeppa og jepplinga á hóflegu verði.  

GM er enn stærsta bílamerkið í Bandaríkjunum en næst koma Ford og Toyota. GM seldi á árinu 2015 3,1 milljón nýrra bíla á heimamarkaðinum. Ford er í öðru sæti með 2,6 milljón bíla og Toyota seldi 2,5 milljón bíla. Í fjórða sætinu kemur svo Fiat-Chrysler með 2,3 milljónir bíla. Þar talsvert langt á eftir koma svo Honda með 1,6 milljón bíla og Hyundai-Kia með 1,4 milljón bíla.