Metsala í sölu rafbíla í Noregi í mars

Bílasala í Evrópu virðist vera að rétta úr kútnum eftir að salan dróst saman á seinni helmingi síðasta árs. Það sem vekur hvað mesta athygli er að í Noregi hafa nýskráningar þar í landi aldrei verið fleiri en í mars. Bara í þessum eina mánuði voru skráðir um 11.500 nýir rafbílar sem er um tvöfalt fleiri bílar en í mánuðunum þar á undan. Í tölum sem nú liggja fyrir kemur fram að 57% nýskráðra bíla í mars í Noregi voru rafbílar

Rekja má þessa aukningu í rafbílum til Tesla Model 3 bílana sem komu nýverið á markaðinn en kaupendur á þessum eina bíl í Noregi í mars reyndust yfir fimm þúsund. Audi e-Tron kom einnig inn á markaðinn til afhendingar í byrjun árs og hafa nú þegar selst yfir 800 eintök það sem af er þessu ári.

Nýskráðir bílar í Noregi frá áramótum eru yfir 38 þúsund og tæplega helmingur þeirra eru rafbílar. Sala á bensín- og dísil bílum í Noregi fer ört minnkandi en í mars var hlutdeild bensínbíl um 12% og á dísilbílum rúm 10% í heildarsölunni.

Um 160 þúsund rafbílar eru nú í umferð í Noregi en yfir 15 þúsund bílar af gerðinni Nissan Leaf seldust þar í landi á síðasta ári. Í mars síðastliðnum seldust um þrjú þúsund Leaf-bílar í Noregi. Flest bendir til að salan á rafbílum eigi bara eftir að aukast hjá Norðmönnum sem eru í algjöru forystuhlutverki þegar kemur að sölu rafbíla í Evrópu.